141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem fylgjast með fréttum af heiminum vita að bæði Kínverjar og Indverjar hafa orðið miklar áhyggjur af mengun í löndum sínum. Jafnvel Bandaríkjamenn eru farnir að setja samhengi á milli ofsafenginna vindbylja og þess að jörðin sé að hitna.

Það kann að vera að eftir ekki svo mörg ár, fjögur eða fimm ár, þegar koldíoxíðlosunin sem Evrópusambandið er búið að markaðsvæða hefur hrakið öll stórfyrirtækin, orkufyrirtækin sem þurfa mikla orku, frá Evrópu til Kína og annarra landa sem framleiða og menga mikið — það gengur náttúrlega ekki nema í stuttan tíma og sú tíð kemur að menn munu beita einhvers konar koldíoxíðlosun um allan heim, líka í Bandaríkjunum, ég er nærri sannfærður um það, hvort það tekur fimm ár eða tíu ár veit ég ekki — þá stöndum við frammi fyrir því að orkuverð mun hækka um allan heim, líka hér á landi, og mikil ásókn verður í að nýta hreinu orkulindirnar okkar sem munu að sjálfsögðu gefa Íslandi gífurlegan auð. Þá munu menn segja: Rammaáætlun, hvað?

Hvernig þykjast Íslendingar geta komist upp með það að þurfa ekki að virkja hreina orku þegar allur heimurinn er kominn í botn með að virkja alla þá orku sem hægt er, vindorku, kjarnorku og bara að nefna það því að það er vaxandi orkuhungur? Þá munu umhverfisverndarsamtök segja: Af hverju er verið að brenna kolum í Kína til að framleiða rafmagn til að framleiða ál, af hverju er það ekki gert á Íslandi? Þau munu koma til Íslendinga og segja: Getið þið ekki virkjað meira? Eruð þið virkilega farin að ganga svo nálægt náttúrunni að þið getið ekki meir? Þá væri gaman að heyra hverju (Forseti hringir.) umhverfisverndarsinnar á Íslandi mundu svara.