141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst og fremst snýr þetta að því að teknar voru sex virkjanir úr nýtingarflokki og settar í biðflokk. Ég lít á það sem brot á ákveðnu samkomulagi sem átti að byggjast á faglegri vinnu. Það er svo mikilvægt ef við stöndum frammi fyrir erlendum aðilum eða erlendum umhverfisverndarsamtökum að við höfum sjálf myndað okkur skoðun á því hvað við viljum virkja og hvað ekki. Svo er náttúrlega alltaf ákveðin þróun í gangi. Það verða leyst vandamál varðandi jarðvarmavirkjanir sem eru óleyst í dag. Það eru komnar til skáboranir þannig að allt það sem ég hef kallað krabbamein af rörum hverfur. Svona jarðvarmavirkjanir gætu orðið allt að því nett sveitahótel og fallið mun betur inn í landslagið. Ég ætla að vona að menn fari að ganga betur um hraun og annars staðar þar sem gerðar eru tilraunaboranir og skilji ekki eftir palla hingað og þangað úr möl eins og maður sér í kringum Keili. Þetta er eitthvað sem við þurfum að læra, að ganga betur um þegar við gerum rannsóknir og annað.

Það er eins gott að við verðum búin að gera einhvers konar samkomulag um það hvað við viljum virkja og hvað við viljum ekki virkja áður en við mætum erlendum aðilum. Þá er ég ekki að tala um auðhringa eða slíkt heldur umhverfisverndarsamtök sem munu krefjast þess að Íslendingar nýti þá hreinu orku sem hér er til að minnka álagið á andrúmsloft jarðar vegna koldíoxíðmengunar og annarrar mengunar sem veldur hitnun jarðar. Við skulum búa okkur undir það.