141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:17]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisspurningu.

Ef ég verð í aðstöðu næsta vor eftir kosningar mun ég leggja til að þessi rammaáætlun verði tekin upp og þeirri vinnu verði lokið sem lagt var í fyrir 13, 14 árum þegar reynt var að búa til þetta sáttaferli. Ég mundi gera það. Ég held að félagar mínir séu flestir ef ekki allir sammála þeirri málsmeðferð. Og að verkefni stjórnmálamanna yrði að reyna að byggja aftur upp traust á því ferli sem búið er að fara í gegnum. Vonandi getur maður innan ekki allt of langs tíma farið að hugsa til baka um þá stjórnarhætti sem hafa verið viðhafðir, t.d. í þessu máli, sem vondan draum. Vegna þess að það felst algjör lítilsvirðing í því sáttaferli sem farið var af stað með fyrir mörgum árum og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stóðu að. Það er fullkomin lítilsvirðing fyrir því ferli ef sú þingsályktunartillaga sem er til umræðu verður samþykkt. Það verður ekki hægt að líta á hana á neinn annan hátt en að hún sé eitthvert stefnuplagg núverandi ríkisstjórnar og hafi ekki með neina sátt eða neitt slíkt að gera.