141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:19]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra og hef svo sem heyrt í einstaka þingmanni úr Sjálfstæðisflokki að þeir telja það mjög mikilvægt að sjálfstæðismenn freistist ekki til þess í ríkisstjórn að fara að fordæmi núverandi ríkisstjórnar og setja upp sína eigin óskaleið. Þeir mundu frekar færa verkefnið aftur til upphaflegrar hugmyndar um að ná víðtækri sátt, þótt vissulega sé það svo, og vildi ég heyra álit þingmannsins á því, að það hafa aðeins verið misvísandi skilaboð, meðal annars úr meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Í morgun hélt formaður nefndarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, mjög góða ræðu. Hún stendur sannarlega fyrir skoðunum sínum sem ég held að séu ekki líklegar til að verða hluti af hinni víðtæku sátt þar sem hún vill ganga mjög langt í vernd. Hún vitnaði í ræðu sinni til bloggskrifa manna sem hafa barist fyrir náttúruvernd þar sem þeir lýsa í raun og veru frati á aðferðafræðina, segja að hún sé meingölluð að hluta til og jafnvel ónýt. Það er spurning hvort hv. þingmaður mundi vilja lýsa skoðunum sínum á því hvort hann telji þetta ferli vera nægilega faglegt.

Það hefur komið fram að innan mismunandi faghópa sé ekki til stöðluð aðferðafræði til að vinna eftir, þetta sé að nokkru leyti huglægt mat á hverjum tíma. Það má til dæmis deila um það að taka virkjunarkosti eins og Norðlingaöldu og færa hana í verndarflokk á grundvelli (Forseti hringir.) niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar, þar sem skoðanakönnun dæmdi 6–0–6, þ.e. sex kosti í nýtingarflokk, enginn í bið og sex í vernd.