141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:24]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Ég velti fyrir mér, virðulegi forseti, hvort svona plagg eins og við erum að ræða hér, tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, geti nokkurn tímann verið eitthvað annað en pólitískt plagg. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er að á bls. 4 í nefndaráliti meiri hlutans er vitnað í erindisbréf verkefnisstjórnarinnar við 2. áfanga rammaáætlunar. Í því bréfi segir að markmið rammaáætlunar sé m.a., með leyfi forseta:

„að skapa faglegar forsendur fyrir ákvörðun um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðhitasvæði. Í áætluninni skal leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, og áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, samhliða því að skilgreina og meta áhrif á hagsmuni allra þeirra sem nýtt geta þessi sömu gæði.“

Ástæðan fyrir að ég spyr einmitt um þetta er að mig langar til að hv. þingmaður, frú forseti, mundi velta því fyrir sem hér talað um. Þarna er lagt niður út frá hverju eigi að meta hlutina. Það kemur síðan seinna fram í nefndarálitinu að þar er talað um orkugetu, hagkvæmni og annað þjóðhagslegt gildi. Þar með er sagt út frá hverju við ætlum að meta hlutina.

Hér segir að það hafi í raun verið tekin pólitísk ákvörðun um að t.d. byggðaþróun ætti ekki að vera sjónarmið sem ætti að skipta máli þegar verið væri að meta kosti til verðmæta. Er þá ekki undirliggjandi að verið sé að segja: Hér er pólitík? Það kemur líka fram, aðeins neðar á blaðsíðunni, að það urðu breytingar þegar verkefnisstjórnin var sett á fót árið 2007. Þá var einmitt lögð áhersla á verndarnýtingu ólíkt því sem áður hafði verið. Þannig að maður sér þegar lesið er í gegnum sögu þessa 14 ára ferlis að að sjálfsögðu kemur pólitísk afstaða, tilfinningarnar, (Forseti hringir.) inn í það hvernig við höfum lagt þetta (Forseti hringir.) upp og hvernig við höfum síðan metið þættina. Er þetta þá ekki bara (Forseti hringir.) lokahnykkurinn á því ferli?