141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisspurningu. Ég er ekki sammála þessari túlkun í greinargerðinni vegna þess að gengið er út frá mjög víðu mati og því skipt í fjóra flokka. Faghóparnir áttu að skoða áhrif á náttúru og menningarminjar, útivist, ferðaþjónustu og hlunnindi, efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjana — þar kemur t.d. byggðaþróun inn í — og síðan virkjunarkosti og hagkvæmni þeirra.

Ég tel að þessir hópar, ef marka má heiti þeirra, hafi verið það rúmt skilgreindir að það hefði verið hægt að taka tillit til nær allra þátta. En auðvitað getur vel verið að einhverjir þættir verði útundan.

Miðað við það sem ég hef kynnt mér — ég hef náttúrlega fylgst með þessu til margra ára, ég hef lesið niðurstöðurnar og verið áhugamaður um þetta og áhugamaður um þessa sátt — hef ég ekki rekist á neitt sem lagt var til grundvallar sem fær mig til að halda að þetta sé eitthvað pólitískt, þrátt fyrir að vera ákveðið af Alþingi, og menn eigi því ekki að geta verið sammála um aðferðafræðina. Ég hef ekki rekist á það.