141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:28]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það virðist einmitt vera mat meiri hlutans að við flokkun kostanna hafi ekki átt að beita sérstökum sjónarmiðum um þjóðarhag eða byggðaþróun nema mjög almennt. Þar sjáum við að tekin er ákvörðun út frá ákveðinni pólitískri sýn þrátt fyrir að menn hafi skipað faghópa sem áttu að taka tillit til þessa. Það virðist vera að þeir sem fara með meirihlutavald á þingi hafi talið að þessir þættir ættu að vega minna en aðrir þættir.

Maður veltir því líka fyrir sér ef skoðuð er ákvörðunin um að færa þessar sex vatnsaflsvirkjanir, þrátt fyrir að verkefnisstjórnin virðist almennt telja að þetta séu álitlegir kostir og séu jafnvel kostir sem hafa verið rannsakaðir mjög mikið, hvort þar komi ekki fram það huglæga mat sem spurt var um í fyrra andsvari, hvort það endurspeglast ekki í þessari ákvörðun. Ef við hefðum verið að vinna þessa vinnu fyrir 20 árum eða 30 árum getur vel verið að við hefðum frekar tekið þá afstöðu að vilja frekar fara í vatnsaflsvirkjanir en jarðvarmavirkjanir af því að þá hefði komið inn þetta huglæga mat.

Spurning mín til hv. þingmanns er því á svipuðum nótum og fyrri spurning mín: Getur svona plagg nokkurn tímann verið annað en pólitískt? Það byggir á ákveðinni sýn, ákveðnum huglægum þáttum. Þrátt fyrir að við séum að reyna að leggja þetta niður fyrir okkur út frá hverju eigi að meta — það er talað þarna um þjóðhagsleg gildi, arðsemi eða orkugetu — koma huglægu þættirnir alltaf að.