141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

fjármálafyrirtæki.

501. mál
[20:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Frumvarpið er á þskj. 643 og er 501. mál þessa þings.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að í kjölfar fjármálaáfallsins mikla sem varð á haustdögum 2008 hófst mikið starf að því að fara yfir löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Þar á meðal skipaði viðskiptaráðherra strax nefnd í þessu skyni. Markmiðið með þeirri vinnu var að komið yrði í veg fyrir að sambærilegir erfiðleikar gætu endurtekið sig hér á landi og hafa margar tillögur sprottið af starfi á því sviði sem hafa skilað sér og leitt til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki sem gerðar voru bæði árin 2010 og aftur 2011. Þá voru gerðar breytingar á sparisjóðakafla laganna nú í vor í kjölfar endurskoðunar á sparisjóðakerfinu en starfshópur á vegum sparisjóðanna, með aðkomu Bankasýslu ríkisins og ráðuneytis, hefur á undanförnum missirum unnið að mati á rekstrarhorfum sparisjóðanna og framtíðarsýn fyrir sparisjóðakerfið eins og kunnugt er, sem hefur verið í verulegri óvissu.

Heildarendurskoðun allrar löggjafar á sviði fjármálamarkaða er að sjálfsögðu hvergi nærri lokið enda um mjög viðamikið regluverk að ræða sem hefur áhrif á flesta ef ekki alla landsmenn. Nokkrar nefndir hafa verið skipaðar sem hafa á undanförum árum unnið að þessu verkefni og sumar eru enn við störf við að yfirfara ýmsa þætti löggjafarinnar. Þá hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið nýlega sett af stað tvo starfshópa, m.a. í kjölfar þeirrar viðamiklu skýrslu sem hér kom fram á þingi á vormánuðum sl. og fylgt var eftir með áliti og skýrslu sérstakrar sérfræðinganefndar nú í haust. Verkefni þessara tveggja starfshópa er annars vegar að fara yfir tillögur að svonefndum Basel III reglum, sem varða eigið fé fjármálafyrirtækja, og hins vegar er það starfshópur sem endurskoðar reglur um slit fjármálafyrirtækja, um millibankaviðskipti o.fl. Þá hefur ráðuneytið einnig til skoðunar hvort setja eigi reglur um eða kveða á um aðskilnað á milli viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi hjá fjármálafyrirtækjum.

Í kjölfar fjármálahrunsins á haustdögum árið 2008 var mikið rætt um eigendur og eignarhald á fjármálafyrirtækjum, m.a. hvort að þeir sem héldu virkum eignarhlut í stærstu fjármálafyrirtækjum landsins hafi verið hæfir til þess að ráða svo stórum hlut og hvort sömu eigendur hafi ráðið yfir stærri hlutum í gegnum eignarhaldsfélög hérlendis og í gegnum aflandsfélög. Nú hefur að nokkru leyti svipuð umræða skotið upp kollinum aftur en fremur að sjálfsögðu þá rætt um eignarhald þeirra fjármálafyrirtækja sem urðu til í kjölfar hruns hinna eldri. Með frumvarpi þessu eru lagðar til reglur um að fjármálafyrirtæki upplýsi um eignarhald þeirra raunverulegu eigenda sem eiga umfram 1% í fjármálafyrirtækjum, bæði í ársreikningum sínum og á vefsíðum fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Sé eigandi að eignarhlut umfram 1% lögaðili í skilningi ákvæðisins, skal jafnframt koma fram hverjir eða hver sé hinn raunverulegi eigandi að viðkomandi hlut. Slík regla getur auðveldað Fjármálaeftirlitinu eftirlit með því hverjir fari með eignarhald yfir fjármálafyrirtækjum á hverjum tíma og tengt saman tengda aðila. Ásamt því byggir ákvæðið á sjónarmiði um almannahagsmuni. Almenningur hefur hagsmuni af því að vita hverjir séu eigendur þeirra fyrirtækja sem hefur verið falið það traust að varðveita fjármuni almennings í formi innstæðna ekki síst.

Í kjölfar breytinga sem gerðar hafa verið á lögum um fjármálafyrirtæki á undanförnum árum hafa margar ábendingar borist um það sem betur mætti fara í löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Með frumvarpi þessu er leitast við að bæta ýmis ákvæði laga um fjármálafyrirtæki og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þá er samhliða þessu lagt til að þrjár tilskipanir Evrópusambandsins verði innleiddar að fullu í íslenskan rétt.

Á grundvelli alls þessa sem að framan hefur verið rakið hefur frumvarp þetta verið unnið. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem eru í meginatriðum eftirfarandi:

Orðskýringum er breytt til hagræðingar ásamt því að nýjar orðskýringar koma inn í íslenskan rétt um endurverðbréfun.

Þagnarskylda þriðju aðila á upplýsingum sem þeir kunna að taka á móti eða komast að vegna starfa síns er áréttuð.

Fjöldi varamanna í stjórnum fjármálafyrirtækja er lækkaður niður í tvo.

Tímafrestur vegna samskipta eftirlitsyfirvalda ríkja vegna stofnunar útibúa er styttur.

Hæfisreglum um lögmenn sem jafnframt sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja, bráðabirgðastjórn eða slitastjórn er breytt og þeim gefinn kostur á að vinna störf sem ekki er talið að valdi hagsmunaárekstrum á markaði.

Þeir sem eiga umfram 1% af hlutafé eða stofnfé í fjármálafyrirtækjum skulu tilgreindir í ársreikningi félagsins og fjármálafyrirtæki skal einnig birta upplýsingar um þá á vefsíðu. Sé eigandi lögaðili skal raunverulegur eigandi eða raunverulegur hagnaðaraðili tilgreindur.

Ákvæði um það hvenær útibú teljist sérstaklega mikilvægt er bætt við lögin.

Nýtt ákvæði kemur inn í lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem kveður á um að Fjármálaeftirlitið skuli í neyðartilfellum taka tillit til fjármálastöðugleika á EES-svæðinu við töku ákvarðana sinna.

Eins og áður sagði voru í vor gerðar breytingar á sparisjóðakafla laganna um fjármálafyrirtæki. Í meðförum þingsins voru hins vegar gerðar breytingar á nokkrum ákvæðum frumvarpsins, m.a. á ákvæði frumvarpsins sem breytti 14. gr. laganna þannig að sparisjóðir með 5 millj. evra stofnfé geti eins og áður haft sömu starfsheimildir og viðskiptabanki en sparisjóðir með 1 millj. evra í stofnfé geti einungis stundað takmarkaða starfsemi, hafi sem sagt svokallað takmarkað starfsleyfi með höndum. Sú breyting hefði átt að leiða til breytinga á ákvæði frumvarpsins sem breytti 2. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna en sú breyting fórst fyrir. Því er sem sagt þá kippt í liðinn með þessu frumvarpi.

Ásamt því hefði mátt skýra betur starfsheimildir þeirra sparisjóða sem starfa á afmörkuðum og staðbundnum starfssvæðum. Með frumvarpi þessu er því lagt til að starfsheimildir þessara sparisjóða verði skýrðar betur í lögum. Þá er jafnframt lögð til sú breyting að núgildandi 63. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sem fjallar um ráðstöfun hagnaðar, að hagnaðurinn nái ekki til bókhaldslegs hagnaðar sem myndast vegna endurskipulagningar sparisjóðs.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.