141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

skipulagslög.

516. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010, með síðari breytingum, auglýsing deiliskipulags, frá umhverfis- og samgöngunefnd.

„1. gr.

2. mgr. 42. gr. laganna verður svohljóðandi: Hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti tillögu til deiliskipulagsins lauk telst deiliskipulagið ógilt og fer þá um það í samræmi við 41. gr.

2. gr.

Við 4. mgr. 44. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi auglýsing um óverulega breytingu á deiliskipulagi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá samþykki sveitarstjórnar telst breytingin ógild.

3. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í nefndaráliti umhverfisnefndar um frumvarpið á 138. löggjafarþingi, þ.e. frumvarpi til nýrra skipulagslaga, segir að nefndinni hafi verið greint frá því að nokkur misbrestur hefði orðið á því að sveitarfélög samþykktu formlega deiliskipulag í sveitarstjórn eða birtu auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda. Skipulag taki ekki gildi fyrr en það hafi verið samþykkt og auglýst í B-deild og því hafi komið upp tilfelli þar sem unnið hafi verið eftir ósamþykktu skipulagi. Nefndin lagði því til breytingar á frumvarpinu í þá veru að væri deiliskipulagið ekki samþykkt í sveitarstjórn innan árs frá því að athugasemdafrestur rynni út skyldi hefjast nýtt ferli þar sem tillagan væri auglýst á nýjan leik. Þá yrði jafnframt skilyrt að eftir samþykkt deiliskipulags væri það auglýst í B-deild Stjórnartíðinda innan þriggja mánaða frá endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar ella teldist tillagan ógild og ferlið hæfist að nýju.

Reynsla af framfylgd 42. gr. laganna hefur hins vegar leitt í ljós að sá þriggja mánaða tímafrestur sem sveitarstjórnum er veittur frá samþykkt deiliskipulagsins til birtingar þess í B-deild er of knappur.

Í frumvarpi þessu er því lagt til að tímafrestur sveitarstjórnar til að birta auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda um samþykkt deiliskipulags verði samræmdur þeim tímafresti sem sveitarstjórn hefur til að samþykkja tillögu að deiliskipulagi frá því að tillagan var auglýst. Því er hér lagt til að hafi auglýsing um samþykkt deiliskipulag ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda innan árs frá því að athugasemdafresti deiliskipulagstillögunnar lauk teljist deiliskipulagið ógilt og fari þá um það í samræmi við 41. gr. laganna.

Í frumvarpi þessu er til samræmis einnig lagt til að settur verði tímafrestur fyrir auglýsingu sveitarstjórnar í B-deild Stjórnartíðinda um samþykki sveitarstjórnar á tillögu að óverulegri breytingu á deiliskipulagi. Lagt er til að miðað verði við eins árs tímafrest eins og þegar um aðrar breytingar á deiliskipulagi er að ræða sem eru óverulegar.

Ég ítreka, herra forseti, að þetta frumvarp er frá umhverfis- og samgöngunefnd allri og ég óska þess að málið gangi til 2. umr.