141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

sjúkratryggingar o.fl.

494. mál
[20:46]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um ástæður þess að hér er lagt til að fresta gildistöku lyfjaendurgreiðslugrunnsins um fjóra mánuði og fjóra daga. Það veldur mér vonbrigðum og ég hef ekki sama skilning á nauðsyn þess og hv. formaður nefndarinnar en virði þær athuganir sem þar hafa verið gerðar. Ég ítreka að mikil réttarbót er fólgin í þessum lögum og sem betur fer var ekki öllum ákvæðum þeirra frestað 1. október síðastliðinn heldur tóku þá gildi þau ákvæði sem sneru meðal annars að aðgangi einstaklinga og lækna að lyfjagagnagrunni landlæknis sem ekki þurfti allan þann tíma sem fyrst Sjúkratryggingar Íslands og síðan apótekarar þurfa til að innleiða þá réttarbót sem hér er.

Þetta frestunarmál lætur ekki mikið yfir sér en ég vil leyfa mér að vekja athygli hæstv. ráðherra og hv. þingmanna á einu ákvæði í lögunum sem nú skal frestað gildistöku á, sem reyndar er margrætt hér í þingsölum. Það snertir í sjálfu sér ekki lyfjaendurgreiðslukerfið sjálft, sem sagt ekki þá einstaklinga sem fara með lyfseðla fyrir lyfseðilsskyldum lyfjum í apótek og fá þar endurgreiðslu og njóta niðurgreiðslu af hálfu Sjúkratrygginga, heldur snýr það að því vandamáli sem hér hefur skapast vegna þess að S-merkt lyf hafa ekki verið endurgreidd eða greidd með sama hætti hvar sem þau eru gefin.

Það hefur orðið til þess að smærri hjúkrunarheimili, dvalarheimili og jafnvel öflugar endurhæfingarstofnanir eins og Reykjalundur veigra sér við að taka við sjúklingum sem þurfa að nota dýr S-merkt lyf. Á því tók nefndin að eigin frumkvæði síðastliðinn vetur. Þess vegna er í lögunum ákvæði um að það skuli vera sama hvar S-merkt lyf eru gefin, hvort heldur það er á sjúkrahúsi, á líknardeild, á dvalarheimili, á endurhæfingarstofnun, á hjúkrunarheimili eða heima hjá viðkomandi einstaklingi.

Ég vil nefna dæmi af Reykjalundi sem er endurhæfingarstofnun sem nú þegar fyrir árslok hefur kostað til 5 millj. kr. vegna fjögurra sjúklinga á þessu ári, þar af fyrir einn sjúkling sem nota hefur þurft lyf sem endurhæfingarstofnunin hefur borgað ríflega 2 millj. kr. fyrir. Er það ekki skrýtið þegar við hugsum til þess hvers lags sjúklingar það eru sem koma í endurhæfingu til Reykjalundar. Það eru meðal annars líffæraþegar sem koma úr líffæraígræðslu frá Svíþjóð með viðkomu á Landspítalanum og fara síðan til endurhæfingar á Reykjalundi.

Ég vek athygli á þessu því að ég tel að það sé ekki endilega tengt apótekurunum sem biðja nú um frestun á gildistöku lyfjaendurgreiðslugrunnsins. Ég tel að það snúi frekar að endurskoðun á S-merktu skránni, þ.e. skrá yfir S-merktu lyfin. Ég er komin hingað til að hvetja hæstv. ráðherra til að tryggja að sú endurskoðun komi til framkvæmda án ónauðsynlegra tafa, því að ég tel ekki að það þurfi að vera upp á náð apótekara komið hvernig það fyrirkomulag er.