141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

atvinnuleysistryggingar.

513. mál
[20:54]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Hér er um að ræða tvenn ólík lög. Frumvarp þetta er lagt fram til breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar og lögum nr. 51/1955, um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks, með síðari breytingum.

Tilgangur frumvarpsins er meðal annars að veita Atvinnuleysistryggingasjóði nauðsynlegar heimildir svo unnt verði að ráðast í sérstakt átaksverkefni á árinu 2013 sem ber yfirskriftina Vinna og virkni 2013 . Átakið var kynnt með minnisblaði á fundi ríkisstjórnarinnar 16. nóvember síðastliðinn. Við gerð frumvarpsins er varðar breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, starfsmannaskrifstofur fjármála- og efnahagsráðuneytis og Vinnumálastofnun. Í því samráði kom meðal annars fram vilji þess efnis að leggja til að aukin áhersla yrði lögð á virkni þess hóps sem verið hefur lengi án atvinnu í stað þess að leggja til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða X, í lögum um atvinnuleysistryggingar, yrði framlengdur enn um sinn án tilkomu frekari aðgerða. Er hér um að ræða fjórða árið í atvinnuleit.

Jafnframt var talið mikilvægt að leggja til tilteknar breytingar á lögunum að öðru leyti sem fram koma í frumvarpinu. Að því er varðar þann hluta frumvarpsins er varðar breytingar á lögum um greiðslur frá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks gerir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2013 ráð fyrir að þær greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fiskvinnslufyrirtækja vegna fiskvinnslufólks sem nýtur kauptryggingar á grundvelli kjarasamninga á meðan vinna liggur niðri vegna hráefnisskorts, að ákvæðið falli niður frá og með 1. janúar 2013.

Ákvæði laganna byggja á kjarasamningi aðila vinnumarkaðarins og viðræður hafa staðið yfir milli fulltrúa velferðarráðherra, Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka fiskvinnslustöðva þar sem mjög þótti vegið að starfsöryggi fiskvinnslufólks. Gera má ráð fyrir að falli greiðslur þessar niður að fullu verði uppsagnir á starfsfólki innan starfsgreinarinnar tíðari. Í fjárlögum árið 2012 voru 190 millj. kr. í þessum lið en nú stefnir í að upphæðin fari í 340 millj. kr. Sett var inn í frumvarpið að fella það alveg út en hér er komin tillaga um að halda upphæðinni í 190 millj. kr. áfram með þrengingu á ákvæðum um hverjir hafa rétt á framlagi, fjölgun daga og svo framvegis.

Í átakinu Vinna og virkni 2013 er lögð áhersla á að fjölga tækifærum fólks til að taka aftur virkan þátt á vinnumarkaði eftir langvarandi atvinnuleysi, en nokkur fjölgun hefur verið í hópi langtímaatvinnuleitenda á síðustu misserum. Mikilvægt þykir því að finna leiðir til að virkja atvinnuleitendur sem fullnýtt hafa rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins eða munu að óbreyttu fullnýta þann rétt sinn innan skamms til þátttöku að nýju á innlendum vinnumarkaði. Má ætla að þannig megi koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Er því lagt til í frumvarpinu að heimildir til að veita styrki verði rýmkaðar í lögunum.

Menn hafa fylgst með því að undirritaðir hafa verið samningar sem eru með fyrirvara um afgreiðslu Alþingis varðandi þessa þætti. En ef við förum aðeins yfir helstu atriðin hér er þarna fyrst og fremst verið að koma til móts við það fólk sem verið hefur atvinnulaust í yfir 36 mánuði. Það er gert með fjölbreyttum hætti og er reynt að mæta því fólki með vinnutilboði í allt að sex mánuði en einnig með skipulögðum ráðgjafaviðtölum þar sem boðið er upp á starfsendurhæfingu hjá Virk. Í heildina er reiknað með að um 3.700 manns hafi verið í atvinnuleysistryggingakerfinu í yfir þrjú ár á næsta ári og hefur verið ákveðið að fara í átak þar sem 2.200 starfstengd vinnumarkaðsúrræði verða í boði. Þar hafa Samtök atvinnulífsins skuldbundið sig til að vera með 60% af þessum störfum, sveitarfélögin 30% og ríkið 10%. Samtals er verið að leggja hér inn 2,7 milljarða króna sem nýtist að mestu leyti sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir þau 2.200 starfstengdu vinnumarkaðsúrræði sem almenni vinnumarkaðurinn, sveitarfélögin og ríkið skuldbinda sig til.

Við fengum reynslu af því verkefni í fyrra varðandi Vinnandi veg, en þar var um 1.300 manns boðið að fá vinnu. Þá kom í ljós að margir af þeim sem áttu að fá vinnu voru ekki vinnufærir og fóru þá í starfsendurhæfingu. Eins kom fram að þó nokkrir höfðu vinnu þá þegar og duttu því út af atvinnuleysisskrá. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni og frumvarpið skýtur lagastoðum undir það. Það er dæmi um gott samstarf allra þeirra aðila sem komið hafa að verkefninu, sem ég taldi upp áðan.

Ég mæli með því að frumvarp um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna fiskvinnslufólks fari til hv. velferðarnefndar til umfjöllunar.