141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

starfsleyfi sorpbrennslu á Kirkjubæjarklaustri.

[10:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ekki fékk ég skýrt svar við neinni af þessum þremur spurningum. Ég hefði gjarnan viljað heyra að ráðherrann hefði gefið yfirlýsingu þess efnis að á meðan málið sé til umfjöllunar hjá stjórnvöldum sé starfsleyfið gilt af því að búið er að loka stöðinni. Sveitarfélagið bíður þess að fá slíka yfirlýsingu frá ráðherra eða Umhverfisstofnun. Það þýðir að sundlaugin er lokuð. Rekstur hennar kostar 500–600 þúsund á mánuði ef sundlaugin er hituð upp með rafmagni. Sveitarfélagið er í samstarfi við eftirlitsnefnd sveitarfélaga með fjárhag sveitarfélaga vegna erfiðrar fjárhagsstöðu, ekki vegna skulda heldur vegna tekjuleysis, íbúafækkunar og annars. Satt best að segja verður sú fjárhagsáætlun sem menn eiga að skila af sér fyrir áramót ekki samþykkt fyrr en fyrir liggur hvort sorpbrennslustöðin fær að halda áfram til að mynda tímabundið í tvö ár á meðan menn leita betri leiða. (Forseti hringir.) Þess vegna skiptir það gríðarlegu máli að svar hæstv. ráðherra sé skýrt, að afstaða hennar sé jákvæð og að sú yfirlýsing komi fram að stöðin geti haldið áfram starfsemi sinni á meðan málið er til umfjöllunar (Forseti hringir.) hjá Umhverfisstofnun eða hjá ráðherra.