141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

fjárveiting til löggæslumála.

[10:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að segja að orð hæstv. innanríkisráðherra um löggæslumálin eru jákvæð í dag eins og oft áður og lýsa skilningi á þeirri þörf sem þar er fyrir hendi. Hins vegar verð ég að segja að það framlag sem meiri hluti fjárlaganefndar virðist nú ætla að bæta í í fjárlagaliði löggæslunnar í landinu er allsendis ófullnægjandi og ef skýrsla ráðherra er skoðuð, sem vitnað var til hér áðan, sést að 200 millj. kr. nægja ekki til að uppfylla þær þarfir sem þar er gert ráð fyrir.

Fjárlögin eru þess eðlis að þar er víða hægt að skera niður. Ég vek athygli á því að hæstv. ríkisstjórn hefur gert tillögur um mörg hundruð millj. kr. í mjög óljós verkefni á sviði græna hagkerfisins (Forseti hringir.) sem hefur jákvæðan hljóm en er ekki hluti af grundvallarskyldum ríkisvaldsins með sama hætti og löggæslan.