141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:47]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi nefndi ýmis mál sem uppi væru innan Evrópusambandsins eða evrusvæðisins og ýmsar væringar þar. Hvort sem það eru umræður um ESB-mál í Bretlandi eða Króatíu eða orðahnippingar milli Frakka og Breta held ég að við ættum ekki að fara að gera það að miklum útgangspunkti þess hvernig við metum stöðu okkar eða höldum á okkar málum. Ég hef almennt sagt það áður að auðvitað skiptir það miklu máli fyrir Ísland að það vinnist úr vandamálum Evrópu. Óháð því hvernig tengsl okkar þangað eru að formi til er þetta auðvitað það svæði sem við eigum mikilla hagsmuna að gæta gagnvart í viðskiptakjörum, útflutningi og innflutningi o.s.frv.

Varðandi stöðu viðræðna nú þá stendur ríkjaráðstefna yfir sem talsverðar væntingar voru gefnar um að mundi marka ákveðin tímamót framan af þessu ári, samanber það sem stækkunarstjórinn Stefan Füle sagði þegar hann var hér í heimsókn. Nú bendir margt til þess að þær væntingar muni ekki ganga eftir, að minnsta kosti ekki hvað varðar opnum stóru kaflanna sem boðað var að gætu orðið á þessari ráðstefnu. Eins og komið hefur fram situr sjávarútvegskaflinn fastur og Evrópusambandið hefur ekki opnað rýniskýrslu sína sem er þó búin að liggja tilbúin í drögum frá því líklega í apríllok og fleiri mikilvægir kaflar hafa ekki komist mikið áfram. En í þessu tilviki er töfin klárlega Evrópusambandsmegin og við komumst ekki áfram með sjávarútvegskaflann fyrr en Evrópusambandið opnar rýniskýrslu sína og við sjáum þar á spilin, sjáum hvort þar verða opnunarskilyrði eða annað í þeim dúr. Tengsl þessa við deilumál eins og makrílmálið eru auðvitað umhugsunarefni.

Ég hygg að það sé rétt (Forseti hringir.) að meta stöðuna eftir ríkjaráðstefnuna og þá sjáum við hver staðan verður þegar við leggjum inn í nýtt ár.