141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Þetta eru náttúrlega alveg dæmalaus svör. Það á að stinga höfðinu í sandinn og ekki horfa til þeirra vandamála sem eru í Evrópusambandinu heldur virðist hæstv. ráðherra vonast til þess að umsóknin verði keyrð áfram. Ég var ekki að spyrja að því hvort Íslendingar væru viðskiptaþjóð Evrópusambandsins, það kemur málinu ekki við og allir vita að við eigum mikil viðskipti við Evrópusambandið. Ég var að spyrja um afdrif umsóknar Íslendinga að Evrópusambandinu.

Það vita flestir sem fylgjast með málefnum Evrópusambandsins að þar hefur stækkunaráhugi sambandsins snarminnkað vegna innanhússdeilna og erfiðleika. Á meðan er umsóknin frá okkur Íslendingum þarna inni og tekið er á móti 5 þús. millj. kr. í IPA-styrki. Hér á landi láta allir eins og ekkert sé að í Evrópusambandinu. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra svari því: (Forseti hringir.) Er einhverra breytinga að vænta frá íslenskum stjórnvöldum varðandi umsóknina? Það var upphaflega spurningin.