141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

verkefni norðurslóða.

[10:53]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og allir vita þá byggjum við norðurslóðir. Talið er að um 30% auðlinda jarðar liggi fyrir norðan heimskautsbaug en þar búa einungis um 3 milljónir manna. Áhugi stórþjóða á þessu svæði hefur verið að vakna, sérstaklega síðustu þrjú, fjögur ár. Koma ísdrekans síðasta sumar var engin tilviljun eða heimsókn Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Grænlands fyrir ekki löngu síðan eða þá stofnun sendiherraembættis norðurslóða í Singapúr. Nú er að vakna mikill áhugi á norðurslóðum meðal stórþjóðanna enda er um gríðarlega hagsmuni að ræða því að eins og ég sagði áðan er talið að um 30% af auðlindum jarðar séu fyrir norðan heimskautsbaug.

Stofnun Vilhjálms Stefánssonar var stofnuð fyrir í kringum 15 árum síðan af mikilli framsýni. Á Akureyri hefur byggst upp mikil sérfræðiþekking á svæðinu. Stofnunin heyrir undir auðlinda- og umhverfisráðherra og vinna nú um 80 manns við rannsóknir á norðurslóðum á Akureyrarsvæðinu. Þess vegna kemur mér það nokkuð spánskt fyrir sjónir að Alþjóðastofnun Háskóla Íslands og félagsvísindadeild hyggist stofna norðurslóðastofu, eins og fréttir bárust af fyrir skömmu. Mig langar til að byrja á að spyrja hæstv. ráðherra: Var það gert í samráði við ráðuneytin tvö, (Forseti hringir.) umhverfisráðuneyti og menntamálaráðuneyti, eða hvernig útskýrir hæstv. ráðherra að þetta sé sett á tvo staði?