141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

verkefni norðurslóða.

[10:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er rétt að stjórnvöld hafa verið að vinna með Háskólanum á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar að því að efla áherslur á norðurslóðasamstarf m.a. í gegnum Sóknaráætlanir landshluta þar sem utanríkisráðuneytið fer með forustu um sérstaka norðurslóðamiðstöð á Akureyri. Hv. þingmaður spyr hins vegar um nýlega tilkynningu um nýstofnað rannsóknarsetur um norðurslóðir á vegum Háskóla Íslands. Í stuttu máli er svarið það að ekki var haft neitt sérstakt samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið um þá stofnun enda hefur Háskóli Íslands fullt frelsi til að rannsaka og kenna hvað sem er. Ég tel reyndar að það sé mjög mikilvægt að háskólinn hafi frelsi til þess en ég legg áherslu á að hið nýja setur muni vinna með norðurslóðamiðstöðinni á Akureyri þar sem búið er að byggja upp markvissa miðju þessa samstarfs. Ég hjó reyndar eftir því að um tilkynningu um setrið var sérstaklega talað um samstarf við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknarstofnanir, en það er stefna stjórnvalda að byggja upp og styðja við miðstöðina á Akureyri. Ég vonast þá til þess að norðurslóðasetrið geti unnið vel með þeirri miðstöð. En þetta er ekki gert að undirlagi menntamálaráðuneytisins eða í samráði við okkur.