141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

verkefni norðurslóða.

[10:58]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það urðu ábyggilega fleiri en einn ríkir á vídeóleigum og ég hugsa að það geti fleiri en einn rannsakað norðurslóðir, svo við höldum þeirri líkingu. Út frá þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið í samstarfi við opinbera háskóla tel ég rétt að við vinnum áfram samkvæmt henni. Þar að auki tel ég að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri geti unnið saman að þessum málum.

Ég minni á að það eru ekki endilega sömu rannsóknarsviðin sem heyra undir þessa skóla þannig að það má vel vera að Háskóli Íslands geti bætt við starf Háskólans á Akureyri á þessu sviði. Ég legg áherslu á að þarna verði um samstarf að ræða en ekki endilega að menn séu að bítast um sömu bitana, þá komi frekar viðbót við starfið fremur en að verið sé að taka frá einhverjum. Það mun ég að sjálfsögðu ræða við báðar stofnanirnar til þess að tryggja að það verði niðurstaðan, þ.e. að með því að leggja saman krafta sína verði niðurstaðan betri en ella hefði orðið.