141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

mat á virkjunum í Þjórsá.

[10:59]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Nú er rammaáætlun til umfjöllunar í þinginu. Þetta verkefni hefur kostað mikla fjármuni og í þeirri vinnu nutum við stuðnings og vinnu allra okkar helstu sérfræðinga. Þessi rammaáætlunarvinna hefur verið í gangi í rúman áratug og niðurstaðan varðandi Þjórsárvirkjanir er það sem ég vil gera að umræðuefni í fyrirspurn minni.

Niðurstaðan í 1. og 2. áfanga rammaáætlunar um þessar virkjanir í Þjórsá var með þeim hætti að áætla mætti að þær væru þeir kostir sem líklegastir væru til nýtingar og vel til þess fallnir að lenda í nýtingarflokki.

Engu að síður birtist okkur hér tillaga frá meiri hlutanum þar sem gert er ráð fyrir að Þjórsárvirkjanirnar fari allar í biðflokk með vísan til varúðarsjónarmiða. Er það afstaða ráðherrans að þær verkefnisstjórnir sem hér hafa starfað hafi ekki litið til sjónarmiða er varða varúð? Er það afstaða hæstv. ráðherra að gögn okkar helstu sérfræðinga um veiðihlutann, sem vísað er til í rökstuðningi með því að færa þessa kosti niður í biðflokk, séu ekki fullnægjandi? Mér finnst í þeirri röksemdafærslu sem hér birtist af hálfu meiri hlutans dregið fram að efast sé um fagmennsku þeirrar ríkisstofnunar sem hefur verið falið hingað til að fara með þessi verkefni.

Verði þessi tillaga samþykkt spyr ég: Hvenær gerir ráðherrann ráð fyrir því að ný verkefnisstjórn skili af sér þeirri vinnu sem þá er eftir um það að koma þessum kostum (Forseti hringir.) annaðhvort í nýtingarflokk eða verndarflokk?