141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

mat á virkjunum í Þjórsá.

[11:01]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem lýtur fyrst og fremst að þessum tilteknu virkjunarhugmyndum sem eru í neðri hluta Þjórsár. Málin hafa verið rædd nokkuð ítarlega í þingsal, m.a. nákvæmlega þessir þættir, en það er ágætt að ræða þetta í víðara samhengi.

Þegar tillaga formannahópsins lá fyrir var hún sett í umsagnarferli í 12 vikur. Það umsagnarferli var sett af stað til að taka mark á því. Það umsagnarferli var sett af stað á grundvelli laga sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust til þess að taka mark á því, til þess að hlusta á þær athugasemdir sem fram kæmu, ekki til þess að stinga síðan þeim umsögnum undir stól og heldur ekki til þess að draga úr vægi þeirrar vinnu sem þá þegar hafði verið unnin af færustu sérfræðingum sem höfðu verið í ferlinu öllu, eins og kom ágætlega fram í máli hv. þingmanns.

Vegna þeirra umsagna var það sýn okkar ráðherranna að það væri afar mikilvægt að horfa sérstaklega til þeirra þátta sem ekki höfðu verið teknir til skoðunar fyrr í ferlinu. Það átti við afar skýrar röksemdir að því er varðaði fiskgengd í ánni. Það varðaði fyrst og fremst Urriðafossvirkjun en vegna almennra sjónarmiða um varúð þótti rétt að allar þrjár hugmyndirnar yrðu skoðaðar með hliðsjón af þessum þáttum. Ég vil minna (Forseti hringir.) hv. þingmann og þingheim allan á það að ef rammaáætlunin hefði klárast í vor eins og að var stefnt (Forseti hringir.) værum við væntanlega komin þó nokkuð áleiðis með að skoða þessa þætti.