141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við byrjum aftur að ræða svokallaða rammaáætlun og ég verð að lýsa yfir hálfgerðum vonbrigðum með að hæstv. umhverfisráðherra skuli labba úr salnum akkúrat þegar umræðan hefst. Ég hef margoft kallað eftir svörum og skýringum á því sem mér finnst vanta betri svör við en gefin hafa verið hér. Því miður hefur það ekki komið. Ég bind reyndar miklar vonir við hv. þm. Mörð Árnason sem er hér í salnum. Hann er talsmaður málsins og ég efast ekki um að hann muni reyna að svara því sem ég ætla að koma inn á í minni stuttu ræðu.

Í framhaldi af þeirri umræðu sem varð í óundirbúnum fyrirspurnatíma milli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur og hæstv. umhverfisráðherra vil ég nefna þá ákvörðun að færa sérstaklega tvær efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, Holta- og Hvammsvirkjun, úr nýtingarflokki í biðflokk. Röksemdirnar fyrir því eru varúðarsjónarmið gagnvart laxastofnunum og ætla ég ekki að gera lítið úr því í sjálfu sér nema þó að því leyti að þetta eru kannski mest rannsökuðu virkjanirnar sem við höfum hér til umfjöllunar sem hægt er að fara að virkja. Hæstv. ráðherra svaraði því áðan, sem var mjög athyglisvert, og sagði að það ætti kannski fyrst og fremst við um Urriðafossvirkjun, og ég skrifaði orðrétt eftir, en almenn varúð hefði verið látin gilda um hinar tvær virkjanirnar. Af hverju skyldi ég segja þetta, virðulegi forseti? Vegna þess að það slær mig þannig, af því að ég á ekki sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem er sú fagnefnd þingsins sem fjallar um þessi mál, að það sé ekki samræmi í því að taka þessar tvær virkjanir — við skulum halda okkur við þessar tvær, Holta- og Hvammsvirkjun — úr nýtingarflokki niður í biðflokk vegna varúðarsjónarmiða út af laxastofnunum þegar hæstv. ráðherra leggur það til að svokallaðar háhitavirkjanir, virkjanir á háhitasvæðunum, annars vegar Hverahlíðarvirkjun og hins vegar virkjanirnar á Reykjanesskaga, og kannski á það sérstaklega við um Krýsuvíkursvæðið — þegar ég les þær varúðarábendingar sem koma fram í áliti meiri hlutans í umhverfis- og samgöngunefnd verð ég að viðurkenna að ég met þær mjög efnismiklar í því sem snýr að því að þær séu hugsanlega ekki sjálfbærar. Það er mengun á grunnvatni sem er þá neysluvatnið, það er brennisteinsmengun á andrúmslofti og síðan líka jarðskjálftavirkni. Þetta finnst mér mun alvarlegri athugasemdir í meirihlutaáliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar en það sem snýr að þessum tveimur efri virkjunum í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun.

Það er þó hnykkt á því í niðurstöðunni hérna að þeir sem halda áfram með þessar virkjanir þurfi að gera sér grein fyrir því að fara þurfi varlega. Miðað við meirihlutaálitið og rökstuðninginn hjá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og síðan það sem kemur fram í þingsályktunartillögunni hefði mér fundist meiri og ríkari ástæða til að setja í biðflokk úr nýtingu þessar virkjanir á háhitasvæðunum, annars vegar Hverahlíðarvirkjun og hins vegar þessar virkjanir á Reykjanesskaganum og kannski sérstaklega sem snýr að Krýsuvík. Í því sem snýr að Hverahlíðarvirkjun vitum við um þau vandræði sem hafa komið upp hjá Hellisheiðarvirkjun. Samt sem áður leggur hæstv. ráðherra til að þessar virkjanir verði áfram í nýtingarflokki í stað þess að setja þær í biðflokk.

Ég hef kallað eftir svörum hjá hæstv. ráðherra og ekki fengið. Hver er ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra leggur það til að efri hluti Þjórsár sé settur í biðflokk, með þeim rökum sem þar eru, vegna almennra varúðarsjónarmiða — sem er nýtt hugtak — en hins vegar að Hverahlíðarvirkjun og virkjanirnar úti á Reykjanesskaga, á Krýsuvíkursvæðinu, séu áfram í nýtingarflokki?

Ég verð að viðurkenna að þegar ég horfi á kortið yfir háhitasvæðið á Reykjanesinu og sé allar þessar borholur hrýs mér eiginlega hugur. Ég viðurkenni það fúslega. Ég hefði talið skynsamlegra og eðlilegra að fara mun hægar þar en í þessar tvær virkjanir í neðri hluta Þjórsár og þess vegna finnst mér ósamræmi hjá hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) að leggja þetta fram með þessum hætti.