141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Áður en ég hef þetta andsvar vil ég almennt þakka fyrir þann mikla stuðning og hlýhug sem mér hefur verið sýndur hér í þingsölum undanfarna daga. Ég var sjálfur í erfiðum þingerindum erlendis en hér var kallað eftir mér og mín var mjög saknað. Ég þakka aðdáendum mínum og stuðningsmönnum, einkum úr Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, fyrir þær hlýju kveðjur sem ég fékk í gegnum netið og fréttaflutning þar sem ég var einn í sífelldum vindbeljanda í fjörrum löndum.

Vegna ræðu Ásbjörns vil ég segja þetta — (Forseti hringir.) Óttarssonar, háttvirts þingmanns: Þarna eru ekki á ferðinni almenn varúðarviðhorf eða einhverjar umferðarreglur í gangi heldur er það varúðarreglan, sem svo er kölluð, sem er ein af fimm eða sex meginreglum umhverfisréttar. Hún er tiltölulega nýleg og er nokkurn veginn svona, í frjálslegri útgáfu, að ef ekki er sýnt fram á með vísindalegum hætti að náttúran beri ekki skaða af þeirri starfsemi, framkvæmdum eða áformum sem uppi eru eigi náttúran að njóta vafans. Þetta er ein af þessum reglum í umhverfisréttinum með mengunarbótareglunni og hvað þær nú allar heita sem hér eru virtar þannig að það er ekki um einhver almenn varúðarsjónarmið að ræða sem eigi við í einu tilviki og ekki í öðru.

Ég tek svo undir áhyggjur þingmannsins af Reykjanesskaganum. Í meirihlutaáliti okkar segir að þessi varúðarregla ætti að gilda um háhitasvæðin öll. Þá er frá því að segja að hugsanlega gildir hún ekki um eina virkjun þar öðrum fremur. Það þarf að minnsta kosti meiri rannsóknir til að finna það út (Forseti hringir.) og það er það sem við leggjum til í meirihlutaálitinu.