141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Eins og ég sagði áðan er ég að mörgu leyti sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um Reykjanesskagann og um Hverahlíðarvirkjun sem Orkuveita Reykjavíkur hefur reyndar sett í biðflokk af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum frekar en umhverfislegum. Ég sé heldur enga ástæðu til að undanskilja háhitasvæðin fyrir norðan, Bjarnarflag í nágrenni einhverrar mestu náttúruperlu á Íslandi og síðan Þeistareyki sem að vísu er búið að eyðileggja nú þegar að töluverðu leyti.

Ég held að við verðum að fara mjög varlega — nei, ég held ekkert um það, ég styð þá afstöðu meirihlutaálitsins að við verðum að fara mjög varlega. Við eigum að fara mjög varlega í háhitavirkjanirnar.

Þau vandamál sem ræðumaðurinn nefndi hafa komið upp og fleiri til á undanförnum árum. Menn héldu að háhitavirkjanirnar væru framtíðin sem við gætum farið í, eftir hinar miklu deilur og hið mikla slys sem ég tel hafa verið á Kárahnjúkasvæðinu en það hefur ekki reynst þannig. Þess vegna verðum við að fara mjög varlega þar.

Það sem ég var að reyna að segja var að það er ólíkt að tala um allar háhitavirkjanirnar annars vegar og hins vegar þessa tvo eða þrjá kosti í Þjórsá. Þar eru tiltekin rök sem reynt var á og sem komu fram í umsögnunum, ný rök sem var reynt á í ferlinu. Þær eru lagðar til þess vegna, einmitt í krafti þessarar varúðarreglu. Menn eru orðnir hér, og það er gleðilegt, á þinginu og víða í samfélaginu nokkuð sammála um að annaðhvort eigi ekki að virkja Urriðafoss eða fara þar eins varlega og nokkur möguleiki er á. Meginástæðan við hinar virkjanirnar tvær, efri virkjanirnar í Þjórsá, er að laxarökin sem færð eru gegn Urriðafossvirkjun kunni að eiga við þær líka. Það þurfum við einfaldlega að rannsaka og til þess er biðflokkurinn, (Forseti hringir.) að kostir í honum séu settir til rannsóknar.