141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðuna. Það er þrennt sem mig langar að ræða við hann, tvennt í fyrra andsvarinu. Í kjölfarið á sameiginlegum fundi sem haldinn var á laugardagsmorguninn með forsvarsmönnum ASÍ og fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins kom enn og aftur bersýnilega í ljós sá afstöðumunur sem er á áliti meiri hlutans sem ber fram þessa þingsályktunartillögu og afstöðu okkar, flestra þingmanna í stjórnarandstöðunni, sem er þá sú sama og ASÍ og Samtök atvinnulífsins hafa, þ.e. að rammaáætlun hafi verið hugmyndafræði um víðtæka sátt og að það eigi að taka tillit til efnahagslegra, þjóðhagslegra og samfélagslegra áhrifa ekkert síður en umhverfislegra. Ég held að einmitt virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár hafi gert útslagið þótt það hafi ekki komið skýrt fram á fundinum á laugardagsmorguninn sem olli þessum viðbrögðum forustu ASÍ.

Hér var í andsvörum við hv. þm. Mörð Árnason bent á varúðarsjónarmið, og í áliti stjórnarþingmanna hefur það reyndar ítrekað verið gert, eins og þau séu allt í einu orðin einhver algildur og óumdeildur réttur í íslenskum lögum. Í nefndaráliti atvinnuveganefndar sem nefndarmenn skrifuðu upp á og er sameiginlegt um græna hagkerfið var einmitt talað mikið um hversu hættulegt þetta ákvæði væri þegar menn færu að túlka það út og suður. Það er mín skoðun, og ég vildi heyra álit hv. þingmanns á því, að það megi nota þessi varúðarsjónarmið um laxastofninn varðandi Urriðafoss. Með þeim rökum sem menn reyna að klína og troða, nú síðast hv. þm. Mörður Árnason, upp á efri virkjanirnar tvær í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, erum við klárlega komin á þann stað (Forseti hringir.) sem við bentum á í þessu nefndaráliti; að sjá að þetta varúðarsjónarmið er stórhættulegt þegar menn fara að oftúlka það í þessa átt.