141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna. Það var áhugavert að hlusta á ræðu hans, hún var yfirveguð þótt þar væri jafnframt sett fram ákveðin gagnrýni á málflutning okkar í stjórnarandstöðunni. Hún fól aðallega í sér þá vangaveltu þingmannsins hvort við sem hér værum með skoðun á þessu máli hefðum í grunninn aldrei ætlað að samþykkja niðurstöður verkefnisstjórnar og rammaáætlunar. Mig langar einfaldlega að segja: Nei, það er alls ekki pælingin. Þessi vinna hefur staðið yfir í um það bil 13 ár. Ég sat sjálf í verkefnisstjórninni og vil að það komi fram þannig að það sé alveg ljóst. Þetta er margra ára verkefni sem hefur kostað mikla fjármuni og það hefði ekki verið sett af stað og því hefði ekki lokið með þeim hætti sem talsmenn og fulltrúar allra flokka gerðu nema fólk hefði virkilega ætlað sér að standa svo við niðurstöðurnar og fylgja þeim allt til enda.

Ég trúi því að minnsta kosti og ég trúi því að menn hafi áttað sig á því að þær deilur sem þá voru í samfélaginu um þetta væru það alvarlegar og djúpstæðar að það bæri að hefja þetta mál upp á annan stall. Þess vegna var sett af stað verkefnið um með hvaða hætti við ætluðum að nýta eða vernda okkar miklu náttúruauðlindir í formi vatnsafls og jarðvarma og því svo fylgt eftir árið 2007 með þeim miklu áherslubreytingum í átt að vernd sem þar birtist okkur.

Það má segja að þar hafi unnist ákveðinn sigur fyrir okkur sem viljum jafnframt vera með grænu sjónarmiðin til hliðar við þau sem varða nýtinguna. Sjónarmiðin um nýtingu og vernd eru þá hliðstæð og jöfn og ég vonast til að hv. þingmaður skilji hvað ég er að meina. Ég vil bara fullvissa hv. þingmann um að meining mín er sú að við öll sem hér höfum tjáð okkur um þetta mál, a.m.k. flestöll, (Forseti hringir.) ég hef hlustað á flestar ræður eins og hv. þingmaður, höfum viljað fylgja þessu faglega ferli allt til enda.