141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef sagt það áður hér í ræðustólnum að einn helsti vandinn við þetta ferli allt saman er sá að lögin voru sett árið 2011 þegar rammaáætlun var langt komin. Í skipunarbréfi verkefnisstjórnar kom fram að þar ætti umsagnarferlið að vera. Það var ráðist í viðamikið samráð og fjölmargir aðilar nýttu sér það, komu athugasemdum á framfæri og komið var til móts við þær að einhverju leyti eftir því sem verkefnisstjórn taldi eiga við, og faghóparnir þá sérstaklega, í því ferli öllu saman.

Við hv. þingmaður erum einfaldlega ósammála um það hversu faglegar breytingarnar eru sem ráðherra lagði áherslu á í því þingmáli sem hér liggur fyrir. Þar er augljóslega vikið frá þeirri röðun og þeim sjónarmiðum sem fram koma í niðurstöðum verkefnisstjórnar. Það er ekkert nýtt að það séu laxar í Þjórsá og rökstuðningur fyrir því að setja virkjanirnar allar þrjár í Þjórsá í biðflokk finnst mér ekki sannfærandi. Þar finnst mér koma þessi pólitísku fingraför (Forseti hringir.) og þar finnst mér fagmennskunni sleppt fyrir einhvers konar pólitíska hagsmuni.