141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður hefur verið óspar á yfirlýsingar um þá skoðun sína að rammaáætlun sú sem nú er að fæðast, þingsályktunin sem hér er að verða til, sé mistök. Ástæðan sem hann færði fyrir þessari skoðun í ræðu áðan var sú að umræðan um hana væri svo löng, að af því að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru í málþófi sé rammaáætlunin mistök. Ég held að þetta hljóti að vera einhver misskilningur í mér að hafa heyrt þetta og vil þess vegna spyrja þingmanninn: Hvaða miklu meiri sátt hefði getað skapast í ljósi þess að hér í salnum er ekki bara óánægja hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum heldur líka mögnuð óánægja hjá ýmsum sem grænni eru í pólitíkinni?

Á hvaða mælikvarða er þingmaðurinn að tala og samkvæmt hvaða aðferð ætti að skapa meiri sátt í málinu? Er það sú aðferð að hann fari með hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni (Forseti hringir.) í bakherbergi og þeir geri hrossakaup með virkjanir (Forseti hringir.) eða er það raunverulegt faglegt ferli? (Forseti hringir.) Hvar brást það, hv. þingmaður? (Forseti hringir.) Hvar brást það?