141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar um þann grunn sem rammaáætlun byggir á, þ.e. lögin sem samþykkt voru í maí 2011, lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ég minnist þess að þegar það frumvarp var flutt leit ekki út fyrir neina sátt um það grundvallarplagg. Það var meðal annars fyrir tilstilli mitt sem formanns iðnaðarnefndar og hv. þm. Marðar Árnasonar sem þá var formaður umhverfisnefndar, ekki satt, sem við settumst niður og náðum samkomulagi. Það var ekki endilega milli okkar tveggja heldur milli allra flokka á Alþingi. Ég tel að þar hafi verið unnið tímamótaverk þar sem við náðum að sætta þau sjónarmið (Gripið fram í.) sem sett voru fram. Það er það verkefni sem ég er að tala hér um — (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég held að ég verði bara að svara þeim spurningum í ræðu á eftir, það gefst ekki möguleiki á því í einnar mínútu andsvari. Það sem ég ætlaði að segja var (Forseti hringir.) að verkefnið (Forseti hringir.) með frumvarpið, hvernig tókst að ná sátt um það, er dæmi um hvað hægt er að gera þegar menn leggja sig fram.