141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:37]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekki neitt sem ég þarf að bregðast við í þessu andsvari þannig að ég get notað tímann til að bæta við. Ég gat um það í minni fyrri ræðu þegar atvinnuveganefnd fór um Suðurland meðan við héldum að við fengjum verkefni að vinna áður en rammaáætlun kæmi til. Það var mjög fróðlegt og ég tel að fleiri hefðu átt að gera það. Ég myndaði mér þar skoðanir sem eiga vonandi eftir að koma fram í framhaldsvinnu við rammaáætlun. Ég skoðaði virkjunarkostina og þess vegna hef ég meðal annars sagt að ég fallist á þau rök sem komu seint um laxagengd í Urriðafossi og tel að við eigum að hafa hann í bið meðan verið er að rannsaka þann kost, en ég hef líka sagt að þau rök eigi ekki við um virkjanirnar tvær þar fyrir ofan.

Ég spurði mig líka hvort við værum, eins og ég sagði áðan, að ganga of langt í jarðvarmavirkjunum á Reykjanesi eins og hjá Sveifluhálsi og Eldvörpunum. Ég sé til dæmis í þeim gögnum sem ég hef undir höndum um Sveifluhálsinn að þar eru menn ekki að tala um neitt fyrr en eftir fimm, sex eða sjö ár.