141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst hvað varðar hraðann hjá næstu verkefnisstjórn, það er rétt að það kemur fram í áliti atvinnuveganefndar að hún hvetur til þess að næsta verkefnisstjórn hraði vinnu við það sem lagt er til að fari í biðflokk. Það er út af fyrir sig gott og góðra gjalda vert, en það má líka spyrja sig: Getur eða á Alþingi að setja forskrift um að menn vinni eitthvað á einu ári sem kannski tæki tvö? Ég veit það ekki, ég er svolítið hugsi yfir þessu.

Varðandi smáar virkjanir get ég ekki úttalað mig um það hvort 10 megavatta virkjanir og minni ættu að fara í þetta, en ég minni líka á að í sambandi við lögin eigum við meira eftir, kannski að fara í gegnum þau og lagfæra með tilliti til reynslunnar. Ég hef til dæmis ekki fengið 100% svar við því hvort menn telji að stækkanir á virkjunum, eins og Búrfellsvirkjun, þurfi að fara í gegnum rammaáætlun og það ferli. Við skulum svo hafa í huga að rammaáætlun er eitt og umhverfismat áætlana er allt annað sem er náttúrlega nauðsynlegur þáttur eins og margoft hefur komið fram.