141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:40]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega og skýra ræðu. Það eru tvær spurningar sem ég vildi bera upp við hv. þingmann.

Um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir er vægast sagt ekki mikil samstaða og eins og hv. þingmaður kom inn á er mikil hætta á að sú hugmyndafræði sem lá að baki þeirri hugsun að ná fram þessari sátt sé fyrir bí og þar af leiðandi að ný ríkisstjórn leggi fram sína eigin tillögu. Þess vegna spyr ég hann þessara tveggja spurninga: Telur hann að í þessari tillögu hafi ekki verið gætt nægjanlega að efnahagslegum og samfélagslegum áhrifum nýtingar og þá að sama skapi frekar að umhverfislegum? Hin spurningin varðar það hvort hann telji að enn sé möguleiki að setjast yfir þetta plagg (Forseti hringir.) í þinginu og ná fram sátt sem breiðari hópur þingmanna gæti sætt sig við en augljós er í augnablikinu.