141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:06]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er í raun mjög sorglegt að við skulum vera í þessum djúpstæða ágreiningi á Alþingi þegar við erum að ræða jafnmikilvægt mál og rammaáætlun, mál sem var lagt af stað með og sett í þetta ferli til að skapa frið, skapa stefnu til lengri tíma sem gæti ríkt nokkuð góð almenn sátt um.

Það var alveg ljóst þegar lagt var af stað í þessa vegferð að ekki yrðu allir sammála um niðurstöðuna, að þeir sem vilja ganga lengra í verndarsjónarmiðum næðu ekki öllu sínu fram frekar heldur en þeir, sem ég held þó að séu færri, sem hafa einhver sjónarmið um að ganga mjög langt í að virkja alls staðar sem mögulegt er. Ágreiningurinn er til staðar. Hann birtist í málflutningi stjórnarliða og minni hlutans í þinginu. Það eru samt þó nokkrir úr hópi stjórnarliða sem hafa miklar efasemdir um að þetta sé ásættanleg niðurstaða málsins og alvarlegustu athugasemdirnar eru auðvitað gerðar vegna þess að í stuttu máli þýðir þessi afgreiðsla málsins að hér verður ekki farið af stað í neinar alvöruvirkjunarframkvæmdir á næstu árum umfram það sem þegar er komið af stað. Það er mjög alvarlegt þegar allir sem um málið fjalla geta verið sammála um það og eru sammála um að til þess að hægt sé að skapa hér skilyrði fyrir nauðsynlegri fjárfestingu inn í landið, bæði beinni erlendri fjárfestingu og þeirri fjárfestingu sem þarf að fara fram innan lands til að geta skapað þann hagvöxt og þau atvinnutækifæri sem er komið inn á í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga þann 5. maí 2011, verður að stíga ákveðin skref fram á við sem snúa að orkufrekum iðnaði. Það er þessi afstaða, þessi niðurstaða í rammaáætlun, sem setur málið í svona mikinn hnút, skapar ekki bara stríðsástand í þinginu heldur er í raun grunnurinn að þessum djúpstæða ágreiningi ríkisstjórnarflokkanna við aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, er í raun djúpstæður ágreiningur ríkisstjórnarinnar við fjöldamörg öfl í samfélaginu sem kvarta yfir því að ekki sé staðið við gerða samninga. Grunnurinn að því að ríkisstjórnin getur ekki staðið við fyrri yfirlýsingar sínar liggur í því að hér næst ekki að skapa þann hagvöxt og þau umsvif sem stefnt var að. (Gripið fram í: Maður nennir ekki að …)

Það gerir málið ekki einfaldara, virðulegi forseti, hvernig þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarflokkanna bregðast við gagnrýni. Á laugardagsmorguninn var sameiginlegur fundur í umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd með fulltrúum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Fulltrúar þessara samtaka fóru mjög málefnalega yfir hlutina en skeytasendingarnar sem þeir fengu á sig frá ríkisstjórnarflokkunum voru um að hér réðu bara atvinnumál og önnur annarleg sjónarmið. „Þú, Gylfi, hefðir viljað fá þetta inn til þín í eitthvert skuggaferli.“ „ASÍ er gengið til liðs við stjórnarandstöðuna, gengið í þau björg.“ „Afstaða ykkar er vonbrigði aldarinnar.“ „Það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi ykkar.“

Svona eru þessi viðbrögð.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson hélt ágæta ræðu um þennan ágreining fyrir hádegishlé. Síðan klykkti hann út með því að beina orðum sínum til mín og sagði: Hv. þm. Jón Gunnarsson vill náttúrlega ekkert nema gegndarlausa stóriðju og hvalveiðar sem atvinnumál.

Þetta er mjög líkleg (Forseti hringir.) umræða til að koma okkur eitthvað áfram veginn. Það er alveg til sérstakrar athugunar hvernig (Forseti hringir.) stjórnarflokkarnir, ráðherrar og þingmenn kjósa að tala til forustumanna í atvinnulífinu við þessar erfiðu aðstæður.