141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni. Ég get staðfest að þetta kom fram. Það er svo sem alveg hægt að fara yfir ræður ákveðinna stjórnarþingmanna í þessu máli á undanförnum dögum þar sem lögð er ofuráhersla á að náttúran eigi alltaf að njóta vafans. Það hefur verið orðað svo af hálfu einhverra þeirra að það sé okkur mikilvægara að ganga lengra í því að vernda náttúruna en að virkja á einhverjum samkomulagsgrunni þar um.

Þetta er alvarleg afstaða, og niðurstaðan af þeirri rammaáætlun sem nú er lögð fyrir þingið er augljóslega í þessum farvegi. Við sjáum að það eru nokkrir þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna, sem telja að alls ekki sé gengið nægilega langt í því að setja virkjunarkosti í vernd, það eigi að ganga enn lengra á því sviði. Ég hef í einhverjum tilfellum tekið undir að virkjunarkostir séu í biðflokki sem eigi í raun samkvæmt einkunnagjöf verkefnisstjórnarinnar að vera í vernd, en almennt hafa þingmenn úr þeim flokki viljað ganga enn lengra en ætla að sætta sig við þetta þannig að það hefur verið reynt að mæta sjónarmiðum þeirra. Að sama skapi er ekki tekið tillit til hinna sjónarmiðanna, um að það sé hægt að halda áfram og skapa þá nauðsynlegu fjárfestingu og umsvif í kringum (Forseti hringir.) orkufrekan iðnað sem verði að fara af stað.