141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum væntanlega í þessari umræðu að svara því ákalli sem kom í yfirlýsingu og auglýsingu ASÍ fyrir helgina um að þingið tæki valdið af framkvæmdarvaldinu og þá væntanlega þeim meiri hluta sem ætlar að framfylgja niðurstöðu þess og keyra rammaáætlun í gegn með þessum hætti og vera tilbúinn að breyta henni. Ég spyr þá hvort þingmaðurinn telji að einhverjar vísbendingar séu um að það sé hægt.

Við framsóknarmenn fengum forustumenn Alþýðusambandsins á þingflokksfund fyrr í dag til þess einmitt að ræða áfram rammaáætlunina og reyndar aðra þætti sem spila inn í auglýsingu ASÍ fyrir helgina um kjarasamninga. Þar kom fram það mat að ef einstaka þingmenn Vinstri grænna, og jafnvel allur stjórnarflokkurinn, gætu sest yfir málið á fundi eins og við vorum á á laugardagsmorguninn og lýst því yfir að það væri skilyrtur stuðningur við ríkisstjórnina og einnig ýtt til hliðar landsfundarsamþykkt Vinstri grænna um að ekki mætti hrófla við neðri hluta Þjórsár væri ekki ólíklegt að innan einhverra klukkutíma kæmust menn að sameiginlegri niðurstöðu. Þegar menn eru hins vegar búnir að læsa sig inni með fyrir fram ákveðnar skoðanir bundnar í landsfundasamþykktir eða yfirlýsingar úr ræðustól Alþingis um að stuðningur við ríkisstjórnina sé skilyrtur því að aldrei verði virkjað í neðri hluta Þjórsár hljómar það auðvitað eins og að ekki verði hægt að ná samstöðu.

Ef ekki væri fyrir slíkar yfirlýsingar, væri þá hljómgrunnur í þingsal til að ná meiri sátt um þetta mál og byggja þannig (Forseti hringir.) rammaáætlun á þeirri hugmyndafræði sem hún var upphaflega sett af stað með?