141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Af því að hv. þingmaður notaði fyrri hlutann til að tala aðeins um Norðlingaölduveitu er rétt að benda á að sá virkjunarkostur sem er nr. 27 í númerakerfi verkefnisstjórnar lenti í 30. sæti út frá nýtingu en 40. sæti frá sjónarhóli verndar. Það er athyglivert að sjá hvar hann lendir upp á það að hann er svo afgerandi settur í verndina. Gott og vel, hv. þingmaður fór yfir rökin og sjónarmið þar að lútandi.

En varðandi Bitru hafði ég á tilfinningunni að sá kostur mundi lenda í biðflokki, einmitt vegna þess að við vitum ekki alveg hvernig tækninni vindur fram. Ég verð að segja og hef sagt það áður að mörg okkar, eða einhver okkar, sem komum að þessari vinnu á fyrri stigum — ég taldi það að minnsta kosti, svo ég tali bara fyrir sjálfa mig, að biðflokkurinn yrði miklu stærri, að þar yrðu miklu fleiri kostir. Auðvitað erum við að taka hér afskaplega stórar ákvarðanir til langrar framtíðar, bæði varðandi verndina og eins nýtingu. Þegar lagt var af stað og framan af vinnuferli verkefnisstjórnar taldi ég að biðflokkurinn yrði mun stærri en við horfum á hér. Þess vegna gerði ég af þeirri ástæðu ráð fyrir því við fyrstu yfirferð að Bitra lenti þar.

Auðvitað er mikilvægt að við skoðum líka, eins og ég kom inn á í ræðu minni, verndarflokkinn og ræðum hann. Eins og hv. þingmaður sagði er þetta fyrsta ræðan þar sem ég fer í örstuttu máli yfir þann flokk þannig að ég óska eftir því, (Forseti hringir.) frú forseti, að verða sett aftur á mælendaskrá.