141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú þegar þessi umræða hefur staðið yfir um allnokkra hríð er ekki úr vegi að velta aðeins fyrir sér fáeinum atriðum sem hafa komið upp og standa dálítið út af í þessari umræðu og spurningum sem við höfum reynt að svara með mismunandi hætti.

Þá ætla ég að byrja að dvelja við fyrstu spurninguna sem skiptir gríðarlega miklu máli í allri þessari umræðu og getur auðveldað okkur dálítið að varpa sýn á það verkefni sem við stöndum frammi fyrir sem er að taka afstöðu til þingsályktunartillögunnar.

Það hefur ekki farið á milli mála að umræðan hefur meðal annars snúist mjög mikið um það hvort unnið hafi verið faglega að undirbúningi þessa máls. Þegar við skoðum það í því samhengi held ég að það hafi í raun ekki verið mikill ágreiningur um það í umræðunum, a.m.k. ekki sem öllu máli skiptir, um það að lengst af var málið unnið faglega. Eins og kom fram í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur var unnið að skipulagningu vinnubragðanna sjálfra mjög lengi áður en menn fóru síðan að vinna efnislega að þeirri flokkun og röðun sem liggur til grundvallar. Þetta var gríðarlega flókið mál og þurfti að horfa á mjög marga þætti enda gert ráð fyrir því bókstaflega í lögunum um þessa rammaáætlun.

Það sem deilan stendur hins vegar fyrst og fremst um er hvað gerðist eftir að verkefnisstjórnin og sá hópur sem vann í nafni hennar og umboði lagði fram tillögur sínar til hæstv. ráðherra á grundvelli laga sem samþykkt voru hérna í maí 2011 sem bjuggu til viðbót við það ferli sem áður hafði verið unnið eftir. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera athugasemdir við að þessari viðbót hafi verið bætt við, þessari stoppistöð sem ég kalla svo. Við getum rætt það sérstaklega en það var að minnsta kosti niðurstaða þingsins og ég tók þátt í því. Það sem allt þetta byggðist á var traust á því að sú vinna sem þessir hæstv. tveir ráðherrar ynnu yrði fagleg rétt eins og sú vinna sem hafði verið unnin fram að því.

Menn segja sem svo að auðvitað verði þetta pólitískt mat að lokum. Það má til sanns vegar færa að því leytinu að það erum við stjórnmálamenn sem munum taka ákvörðunina að lokum. Það sem hæstv. ráðherrar stóðu frammi fyrir var það að leggja síðan mat á þá tillögu sem hafði verið lögð fyrir hæstv. ráðherra í formi draga að þingsályktunartillögu eins og við vitum og hæstv. ráðherrar tóku þá til við það. Annars vegar komust þeir að þeirri niðurstöðu að tilteknir virkjunarkostir, sex að tölu, m.a. í neðri hluta Þjórsár, ættu allir með tölu að fara úr nýtingarflokki í biðflokk. Fyrir þessu færðu þeir að sönnu tiltekin efnisleg rök. Ég er ósammála þeim rökum, tel að þau standist ekki. Hins vegar, og það er kjarni málsins, tóku hæstv. ráðherrar ekki efnislega afstöðu til mála sem líka voru þarna upp á teningnum, um virkjanir eins og til að mynda Hagavatnsvirkjun sem fram kom í flestum umsögnum sem voru lagðar fram að ætti tvímælalaust heima í nýtingarflokki. Þessi virkjun er dálítið sérstök að því leytinu að hún á uppruna sinn sem eins konar umhverfisverndarvirkjun í þeim skilningi að henni er ætlað að reyna að draga úr sandfoki, uppblæstri sem er eitt af stærstu umhverfisvandamálum okkar.

Hins vegar er Hólmsárvirkjun sem einnig hafði verið metin á sínum tíma af verkefnisstjórninni, faghópunum, undirbúningshópnum og því öllu saman. Þar hafði komið fram að nýjustu gögn voru ekki tiltæk þeim sem höfðu unnið að málinu fyrr en alveg á síðustu stundu og ekki vannst tími til að fara yfir þau. Þá hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherrar mætu þessa virkjunarkosti með sama hætti í ljósi ábendinga sem höfðu komið fram, í ljósi umsagna, nýrra upplýsinga sem höfðu komið fram og þar fram eftir götunum. Það var hins vegar ekki gert. Hæstv. ráðherrar kusu að leggja fram tillöguna sem byggði eingöngu á því að færa þessa tilteknu virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk og auðvitað blasir við hver ástæðan er. Hún er sú að þarna var ekki fagleg sýn að baki heldur fyrst og fremst pólitískur vilji. Í flokkssamþykktum frá Vinstri grænum 28.–30. október 2011 var sérstaklega ályktað að flokknum yrði falið að stækka biðflokkinn og verndarflokkinn. Þetta samhengi er að mínu mati hvað ámælisverðast og þess vegna verður ekki hægt að segja (Forseti hringir.) að síðustu fingraför hæstv. ríkisstjórnar á þessu máli (Forseti hringir.) áður en það kom inn í þingið hafi verið fagleg.