141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, það kom fram bæði hjá Samtökum atvinnulífsins og ekki síður Alþýðusambandi Íslands að þeir teldu ekki hafa verið horft nægilega til þessara efnahagslegu raka. Hins vegar kom mjög skýrt líka fram hjá báðum aðilum að þeir teldu ekki að það mætti fórna þeim verndarsjónarmiðum sem liggja til grundvallar nýtingunni á altari efnahagslegra sjónarmiða. Menn urðu auðvitað með sama hætti að taka tillit til þessara náttúrufarssjónarmiða eins og menn hefðu ætlað að reyna að gera alveg frá upphafi. Það er þetta einstigi jafnvægisins sem menn eru að reyna að feta.

Það sem mér fannst athyglisverðast af því sem kom fram hjá Alþýðusambandi Íslands var að vegna þess að það var tekin ákvörðun um að færa þessa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk, og að minnsta kosti þrír þeirra væru fullrannsakaðir og mest rannsakaðir allra virkjunarkosta í landinu og þar að auki mjög hagkvæmir, væri verið að stuðla að því, að óþörfu, að draga úr lífskjarabata í landinu. Þetta mundi til dæmis þýða að það yrði minna erlent fjárstreymi til landsins sem mundi síðan hafa þau áhrif að gengi íslensku krónunnar styrktist, verðlag þróaðist með jákvæðari hætti en fram að þessu, það yrði meiri stöðugleiki í landinu og lífskjarabati mundi líka aukast hjá umbjóðendum Alþýðusambands Íslands. Að þessu leytinu settu þeir að mínu mati þetta mál alveg í skiljanlegt og eðlilegt efnahagslegt samhengi. Það var þó ekki sjónarmið Alþýðusamband Íslands að það ætti að virkja hvað sem það kostaði. Þvert á móti vísuðu þeir til virkjunarkosta sem voru fullrannsakaðir, virkjunarkosta sem höfðu líka verið metnir út frá umhverfislegum sjónarhóli og á þeim grundvelli settir í nýtingarflokk.