141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja ræðu mínu á að fjalla aðeins um þann sameiginlega fund sem umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd héldu með forustumönnum ASÍ og Samtökum atvinnulífsins á laugardaginn og lýsa yfir ánægju minni með að sá fundur skyldi vera haldinn. Ég þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, fyrir að standa fyrir því sem og formanni atvinnuveganefndar, Kristjáni L. Möller.

Fundurinn var málefnalegur og fram komu mjög skýr sjónarmið í máli aðila vinnumarkaðarins, einmitt um það sem ég vil segja að styðji og ýti undir þann rökstuðning sem sá sem hér stendur hefur staðið fyrir í þessu máli, þ.e. að taka þurfi tillit til mjög breiðra þátta í samfélagslífi okkar Íslendinga, efnahagslegra og samfélagslegra auk hinna umhverfislegu. Það er alveg skýr greinarmunur á þeim sem eru harðastir í að fylgja eftir meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar, þeir telja að svo eigi alls ekki að vera, það eigi hreint ekki að taka tillit til efnahagslegra og samfélagslegra ástæðna, frú forseti, ef ég túlkaði orð þeirra rétt sem meðal annars féllu á þann veg að ekki ætti að taka tillit til atvinnumála eða annarra annarlegra sjónarmiða, svo ég vitni orðrétt til einnar ræðunnar sem þar var haldin.

Hver er staðan nú? Jú, hér hafa verið lagðar fram fjölmargar breytingartillögur og sá sem hér er hefur lagt fram tvær, aðra er varðar Hagavatnsvirkjun og hina um Hólmsárvirkjun hina neðri. Ég tel að í báðum tilvikum hafi verið skortur á frumkvæði hjá ráðherranum og hugsanlega hjá umhverfis- og samgöngunefnd líka við að skoða gögn sem þar lágu fyrir og taka síðan afstöðu til þess að færa þessa tvo kosti í orkunýtingarflokk.

Það hefur líka komið fram talsverð gagnrýni á meðferð ráðherranefndarinnar og þess vegna væri mikilvægt að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, sem þá var hæstv. iðnaðarráðherra og tók þátt í þessu ferli, skýrði afstöðuna. Það væri satt best að segja mjög áhugavert að það væri ekki einungis hæstv. umhverfisráðherra sem hér hefur staðið fyrir umræðunni í haust heldur kæmi hv. þingmaður og skýrði afstöðu sína til ferlisins og þessara mála allra. Mikið hefur verið talað um að Vinstri grænir hafi sett fótinn fyrir dyrnar í ýmsu tilliti og þess vegna væri áhugavert að heyra álit hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur á því.

Hver verður afleiðingin ef við náum ekki eyrum stjórnarflokkanna? Einstaka stjórnarþingmenn hafa þó talað um að það væri skynsamlegt að reyna að ná breiðari átt. Afleiðingin er augljóslega sú, og ábyrgð stjórnarflokkanna mikil, að hér verður minni efnahagsbati en ella gæti orðið. Hér verður fjárfesting áfram í sögulegu lágmarki því að satt best að segja er orkugeirinn, eins og fram kemur í McKinsey-skýrslunni margumtöluðu, einn þeirra kosta í íslensku atvinnulífi sem er hvað áhugaverðast að fjárfesta í.

Það ferli sem við höfum haft í dag hefur líka verið gagnrýnt, að Landsvirkjun hafi til að mynda ekki heimild til að fara af stað í virkjanir nema fyrir liggi sölusamningar, helst til 40 ára, og það muni hafa neikvæð áhrif á það að hægt væri að selja orkuna til áhugaverðari kosta en stóriðju, eins og álvera, sem kaupir orku til 40 ára, t.d. einhverra kosta sem borga hærra verð fyrir orkuna.

Þó er rétt að ítreka í lok þessarar umræðu að það að setja kosti í orkunýtingarflokk þýðir ekki það sama og að virkja, heldur eru þeir kostir þá til umfjöllunar hjá orkufyrirtækjunum, hjá sveitarfélögunum varðandi skipulagsmál og umhverfismat og annað í þeim dúr, ríkisstofnunum og víðar áður en til slíkrar ákvörðunar kemur. En það er mikill ábyrgðarhluti að taka arðsömustu virkjunarkostina út úr þessu plaggi og fara þannig inn í framtíðina.

Ég ætla að enda þessa ræðu mína á að taka undir það ákall sem ASÍ var með til þingmanna og beina því sérstaklega til þingmanna stjórnarliðsins að setjast niður með okkur og reyna að finna breiðari sátt um þetta mál. Ef það verður ekki niðurstaðan að við náum breiðari sátt er augljóst að þetta plagg (Forseti hringir.) verður vart á vetur setjandi og verður breytt eftir næstu kosningar. Það er á ábyrgð (Forseti hringir.) núverandi stjórnarflokka sem það gerist.