141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:10]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir afar fróðlegt það sem fram kom í máli síðasta hv. ræðumanns, að hann bindi í fyrsta lagi vonir við að fá stuðning við breytingartillögur sínar. Það er í samræmi við þá tilfinningu sem ég hef eftir að hafa rætt við þingmenn og hlustað á málflutning hér. Reyndar verður það að viðurkennast að þeir eru ansi fáir stjórnarliðarnir sem hafa tekið þátt í þessari umræðu, það er nánast hægt að telja þá á fingrum annarrar handar.

Eins og hér kom fram í umræðum okkar hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar rétt í þessu þá hefur þáverandi iðnaðarráðherra, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, ekki séð ástæðu til að koma hingað og taka þátt í umræðunni. Mér finnst það mjög miður vegna þess að ég mundi gjarnan vilja ræða sérstaklega við hana um þá ákvörðun að halda Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley í biðflokki og taka ekki mark á orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins sem komst í báðum þessum tilfellum að þeirri niðurstöðu að rétt væri að færa virkjanirnar úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Það er auðvitað aldrei of oft ítrekað að þegar virkjunarkostir eru komnir í nýtingarflokk er ekki eins og þeir séu opnir og öllum öðrum aðferðum við að meta umhverfisáhrif og veitingu starfsleyfa og annað slíkt sé hent fyrir róða, að sjálfsögðu ekki. Það að raða virkjunarkostum í nýtingarflokk er fyrsta skrefið af kannski 16–18 skrefum sem þarf áður en virkjun foss er hafin, virkjun náttúruauðlindar.

Í tilfelli Reykjanessins svo að ég taki dæmi þaðan, vegna þess að við vorum að ræða breytingartillögur varðandi vatnsaflið, þá hafa líka komið breytingartillögur varðandi Reykjanesið. Hv. þingmenn Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir hafi lagt fram breytingartillögu um að færa alla jarðhitakostina á Reykjanesi í verndarflokk frekar en biðflokk — ég er ekki með þetta, ég hélt að ég væri með þetta hérna fyrir framan mig. Ég vil lýsa andstöðu minni við þá fyrirætlan vegna þess að, eins og ég hef rakið í fyrri ræðum mínum, ég tel það sem kallað hefur verið eftir annað veifið vera algera forsendu fyrir því, þ.e. nánari upplýsingum um jarðhitann, hvernig hann sé virkjaður, nánari upplýsingum um Reykjanesið sem virkjunarkost því að því er haldið fram sem rökum með fyrrnefndri breytingartillögu að við séum ekki nægilega upplýst um hvað þarna sé á ferðinni. Það er lykilatriði að kostunum sé raðað í nýtingarflokk vegna þess að annars er ekki hægt að gera þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að við öflum okkur þessarar þekkingar. Það er með öðrum orðum ekki hægt að vera með tilraunaboranir á svæði sem er í biðflokki eða verndarflokki og þá öflum við okkur ekki þessarar mikilvægu þekkingar.

Ég las á netinu viðtal við hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem hefur verið þaulsetin við umræðuna en er ekki hér akkúrat í þessum töluðu orðum, þar sem hún varar við hugsanlegu stórslysi á Reykjanesskaganum. Ég verð að lýsa mig algerlega ósammála því og vil ítreka að það fer ekkert af stað á Reykjanesinu nema búið sé að fara í gegnum skipulag, umhverfismat, auk þessara 16–18 skrefa sem þarf til. Það að virkjunarkostur sé settur í nýtingarflokk er ekki ávísun á stórslys, það er ávísun á að við getum aukið þekkingu okkar á því mikilvæga svæði.