141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Frú forseti. Við ræðum hér um rammaáætlun. Sú umræða er að verða nokkuð löng en það er engu að síður hægt að segja að margt athyglisvert á enn eftir að koma fram í umræðunni. Núna síðast á laugardaginn var haldinn sameiginlegur nefndafundur umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar. Aðdragandi þess að beðið var um að sá fundur yrði haldinn var að Alþýðusamband Íslands sendi fyrir helgina frá sér yfirlýsingu í formi auglýsingar þar sem rakið var í mörgum liðum hvernig ríkisstjórn Íslands og forustumenn ríkisstjórnarinnar hefðu svikið fjölmörg atriði sem snerta þetta mál frá gerð kjarasamninga og á þessu kjörtímabili.

Einn þeirra liða sem komið var inn á var einmitt rammaáætlun, sú rammaáætlun sem við ræðum hér nú. Í framhaldi af yfirlýsingu Alþýðusambandsins óskuðum við fulltrúar Framsóknarflokksins, sá sem hér stendur ásamt hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni, eftir því að haldinn yrði sameiginlegur fundur hv. atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar. Í framhaldinu óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þessum nefndum eftir því að fundurinn yrði opinn fjölmiðlum vegna þess hversu mikilvægt málið væri. Forustumenn ríkisstjórnarinnar komu fram í fjölmiðlum og sögðu að þessar yfirlýsingar og auglýsing Alþýðusambands Íslands væri algjör þvættingur og lygi, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, og svöruðu yfirlýsingu Alþýðusambandsins í mörgum liðum.

Á fundinum sem var haldinn síðastliðinn laugardag rakti Alþýðusamband Íslands mjög vel hvernig ríkisstjórnin hefði gefið vilyrði og loforð fyrir því að hlutum yrði hagað með ákveðnum hætti og að niðurstaðan varðandi rammaáætlun væri um þessa þverpólitísku faglegu nálgun sem verkefnisstjórnin komst að. Aðspurður sagði forustumaður Alþýðusambands Íslands að allt sem kæmi fram í auglýsingunni stæði, meðal annars sá liður sem sneri að rammaáætlun.

Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Hvor aðilinn segir satt í þessu efni? Það er í rauninni kjarninn inn í þessa umræðu að það sem samið var um á sínum tíma og Alþýðusambandið hefur verið að leggja áherslu á er að samhliða kjarasamningum væri mikilvægt að ráðast í ákveðna atvinnuuppbyggingu. Ráðast í ákveðna þætti til að efla hagvöxt og svo framvegis og ná verðbólgunni niður. Þeim hluta hefur ríkisstjórnin bara ýtt til hliðar. Því sem á að undirbyggja kjarasókn í landinu hefur ríkisstjórnin ýtt til hliðar og mér fannst forseti Alþýðusambands Íslands, þó að ég sé nú ekki alltaf sammála þeim ágæta manni í mjög mörgum málum, oft í sínum málflutningi færa mjög málefnaleg rök fyrir því með hvaða hætti þetta bar til. Einnig hvernig er mikilvægt að við hugum að sátt í þessu máli, hugum að því að byggja undir þetta breiðan grunn og svo framvegis og hvernig er mikilvægt að atvinnan ýti síðan undir og styðji við lífskjarasókn í landinu.

Nú erum við stödd hér í þessu máli og ég held að enn sé mögulegt að menn sem hafa á því ólíkar skoðanir setjist niður og leitist við að ná um það breiðri sátt. Ef við horfum meðal annars til þess sem forseti ASÍ sagði þá er veruleg hætta á því, í ljósi þess hvernig málið hefur verið unnið núna á lokakafla þess, að einungis sé verið að klára það til sex mánaða. Svona stórt, mikilvægt og brýnt mál sem hefur verið lagður grunnur að í þetta langan tíma, við eigum að horfa til þess að lokasprettur þess sé unninn með öðrum hætti.

Þess vegna hefði verið skynsamlegast að þingnefndir kæmu aftur saman og menn reyndu að leita að þeirri breiðu sátt og samstöðu sem á að vera möguleg í þessu stóra máli.