141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er eðlilegt, með tilliti til þess að það lá eiginlega ljóst fyrir að málið átti ekki að taka breytingum í meðförum þingsins, að þeir sem þá gegndu ráðherraembættum og gera enn, hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra í það minnsta, svaraði fyrir þetta og eins hv. þm. Oddný Harðardóttir sem þá gegndi ráðherraembætti og var hinn ágæti hæstv. ráðherrann sem mótaði þessar tillögur og lagði þær fram með hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra. Það hefur ekki borið mikið á svörum úr þeirri átt um það hvers vegna þetta var gert, en sá hv. þingmaður ætti að geta svarað því á sama hátt og hæstv. ráðherra.

Einmitt í ljósi þeirra raka sem hv. þingmaður benti meðal annars á og vegna þess að pólitíkin greip þarna inn í hefur maður verulegar áhyggjur af því að yfirgnæfandi líkur séu til þess að þessi áætlun sé bara til skamms tíma og pólitíkin muni aftur grípa inn í. Við erum hugsanlega (Forseti hringir.) að tapa því tækifæri sem við höfum haft til að geta unnið svona stórt og viðamikið mál á þverpólitískum og faglegum grunni.