141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að minnst var á landsfundarályktanir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þá minnir mig að nokkrir landsfundir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi ályktað að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu, þannig að ég held að þeir hafi nú átt það til að fara helst til frjálslega með þær samþykktir.

Ég óttast að hv. þingmaður hafi rétt fyrir sér, að það sé engin sátt í boði. Það finnst mér mjög alvarlegt mál og ég veit að það mun ekki gera neitt annað en að stöðva hér framþróun vegna þess að eins og margir í þingflokki mínum hafa haft áhyggjur af og við höfum verið að ræða þá getur það þýtt, ef rammaáætlun fer í gegn núna svona, jafnvel þótt stjórnarskipti verði — sem vonandi gerist í vor — og sú ríkisstjórn vildi hverfa til baka þá tekur þetta allt saman tíma. Þá erum við að verða af ótrúlega miklum tækifærum og íslenskt efnahagslíf að verða af miklum verðmætum sem felast í því að nýta náttúruauðlindir okkar með skynsamlegum og sjálfbærum hætti með hagsmuni okkar sem byggjum þetta land í forgrunni sem og íslenskrar náttúru. Það fer nefnilega saman.

Ég óttast að ef þetta verður samþykkt núna óbreytt þá taki endalausan tíma að vinda ofan af því og spóla til baka eins og við sjálfstæðismenn erum að leggja til með okkar þingsályktun, að færa þetta aftur til verkefnisstjórnarinnar. En það tekur allt saman tíma nema ef sú ríkisstjórn sem tekur við fer af stað með sömu (Forseti hringir.) vinnubrögð og núverandi ríkisstjórn gerir og hunsar sáttina og velur að keyra áfram á (Forseti hringir.) þeirri einstefnu sem sú ríkisstjórn hugsanlega mundi vilja fylgja.