141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt mat hjá hv. þingmanni að þó að mjög hafi flísast úr stuðningsmannaliði ríkisstjórnarinnar í þingsalnum og auðvitað miklu meira úti í samfélaginu eiga þeir enn vini og vandamenn sem alltaf koma til skjalanna þegar bjátar á í ríkisstjórnarfjölskyldunni. Við vitum náttúrlega að það mun gerast í þessum efnum og alltaf má stóla á þá eins og við vitum, eiginlega frekar en ýmsa þá sem eru kannski hinir formlegu stjórnarsinnar.

Ég hef verið að velta fyrir mér hvort við gætum engu að síður reynt að finna meiri sátt, ekki bara inni í þessum þingsal heldur meira úti í samfélaginu. Við höfum verið að nema staðar við það sem menn hafa verið að leggja fram og það eru þá fyrst og fremst þeir virkjunarkostir sem voru upphaflega í drögunum að þingsályktuninni. Af því að það er augljóst mál að það sem hefur valdið ósættinu, mesta ósættinu skulum við segja, er ferlið sem hófst eftir að þau drög voru lögð fram. Vandamálið er sem sagt þar, í vinnubrögðunum þar.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, við hljótum núna eftir þetta að þurfa að endurskoða það með það að leiðarljósi að reyna að koma í veg fyrir að svona gerist aftur í framtíðinni.

Það er nefnilega alveg rétt sem Orkustofnun hefur bent á að það er dálítið sérkennileg staða sem upp er komin. Af því að menn vildu af pólitískum ástæðum henda út þeim sex virkjunarkostum sem svo mikið hefur verið rætt um þá er ákveðinn halli á þessu plaggi. Hallinn er sá að áherslan virðist vera á jarðhitaverkefnin. Orkustofnun bendir á að það muni þýða að meiri þrýstingur, meðal annars pólitískur þrýstingur, hugsanlega atvinnulegur þrýstingur, verði á að fara í virkjanir og þá eru virkjunarkostirnir bara ekki til staðar nema á jarðhitasvæðunum. Við vitum að þar eru alls konar takmarkanir og það er margt sem þarf að varast í þeim efnum. Það skiptir svo miklu máli að hægt sé að vinna þessa hluti samhliða, það er mikilvægt, vegna þess að (Forseti hringir.) í jarðhitavirkjununum er óvissuþáttur sem á hins vegar ekki við um vatnsaflsvirkjanirnar.