141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:24]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi þessa þings var lögð fram sú þingsályktunartillaga sem er hér til umræðu og sem verið hefur til umræðu á þessu þingi og reyndar áður með þvílíkum hætti að það er eins og málið þoli enga bið. Þannig er það nú á dagskrá á þriðja síðasta starfsdegi Alþingis fyrir áramót þótt enn séu óafgreidd fjárlög fyrir næsta ár. Hvað á varaþingmaður sem óvænt er kallaður inn á þing að halda um þetta mál? Að hér liggi lífið við? Annars vegar frá sjónarhóli þeirra sem segjast fyrst og fremst bera hag náttúrunnar fyrir brjósti, og gera það sjálfsagt einlæglega, og hins vegar frá sjónarhóli þeirra sem segjast hafa velferð manna í fyrirrúmi umfram annað sem og skynsamlega nýtingu orkuauðlinda Íslendinga. Hvað á að halda um þetta mál? Að samþykkt þessarar þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sé einhvers konar grundvallarforsenda virkjunar eða verndunar landsvæða hér á landi? Hvernig mætti það svo sem vera þegar lögum samkvæmt er gert ráð fyrir að önnur þingsályktunartillaga verði lögð fram um sama efni eftir um það bil fjögur ár, eða að minnsta kosti ekki seinna, og aftur fjórum árum eftir það o.s.frv.?

Nei, tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er annar, en þó ekki síðri, en sá að þoka málum annaðhvort aftur á bak eða áfram. Tilgangur þingsályktunartillögunnar eins og lagt var upp með í upphafi fyrir löngu síðan, fyrir áratugum síðan, er að skapa sátt um fagleg vinnubrögð og aðferðir við að meta virkjunarkosti út frá mismunandi sjónarhornum. Einkum út frá orkugetu og hagkvæmni viðkomandi kosta, svokölluðum þjóðhagslegum áhrifum, öðrum áhrifum á samfélagið, atvinnulíf og byggðaþróun og afleiðingum fyrir náttúruna og menninguna. Markmiðið með þessari þingsályktunartillögu er þannig að leitast við að tryggja að ákvarðanir um nýtingu virkjunarkosta byggist á víðtæku mati þar sem tillit væri tekið til fjölbreyttra sjónarmiða. Markmiðið er sátt. Sátt um þetta mikilvæga mál sem varðar auðvitað alla landsmenn þótt óbeint sé í tilviki langflestra. Með þingsályktunartillögunni er leitast við að ná þessari sátt með víðtæku samráði við þá sem hafa beinna hagsmuna að gæta og við hina svokölluðu sérfræðinga.

Virðulegi forseti. Í þessari þingsályktunartillögu er fjallað um 67 landsvæði á Íslandi og lagt fyrir þingheim að taka afstöðu á einn veg til allra þeirra svæða, þ.e. í samræmi við þá flokkun sem gerð er tillaga um í þingskjalinu. Það má því vera ljóst að þingmönnum er ætlað að reiða sig á álit sérfræðinga og annarra sem komu að verkefnisstjórn málsins í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Þingmönnum er það kannski að meinalausu. Það hefur jú alltaf verið ætlunin að byggja sáttina á þvílíkum faglegum grunni en mikið hlýtur það samt að vera sérstakt fyrir þingmenn, sem jafnan ber að fylgja sannfæringu sinni við afgreiðslu mála í þessum sal, að vera uppálagt að annaðhvort samþykkja eða synja umfjöllun um 67 landsvæði á einu bretti.

Nú skal ekki gert lítið úr þekkingu þingmanna á staðarháttum hér á landi og víst er að margir þeirra eru víðförlir en fyrir til dæmis varaþingmann sem ættaður er að langfeðgatali beggja vegna annars vegar úr Aðalstrætinu hér handan við hornið og hins vegar úr Garðastrætinu, götunni þar fyrir ofan, er álit svokallaðra sérfræðinga á til dæmis Farinu við Hagavatn kærkomið. Að minnsta kosti á meðan það svæði er á meðal 66 annarra landsvæða sem taka þarf afstöðu til. Ef einungis ætti að taka afstöðu til þessa tiltekna landsvæðis er þó ekki útilokað að þessi sami varaþingmaður gerði sér far um að sækja svæðið heim og kynna sér aðstæður ítarlegar en skýrslur á pappír geta gert.

Sami varaþingmaður hefur þannig samúð með sjónarmiði hv. þm. Kristjáns Möller, sem situr reyndar í forsetastól þessa stundina, en hann lýsti því í útvarpi um helgina hvernig hann hefði skipt um skoðun í vetur þegar hann heimsótti virkjunarsvæði Þjórsár og sannfærðist þá fyrst um að mögulega hefði virkjun þar neikvæð áhrif á laxagöngu. Þannig rökstuddi þingmaðurinn viðsnúning í afstöðu sinni til þeirrar tillögu sem lögð var fyrir ráðherra af verkefnisstjórn, sérfræðingum og samráðsfólkinu, allt var það í samræmi við lög nr. 48/2011, áður en ráðherra fór og breytti flokkuninni sem sérfræðingarnir höfðu lagt til.

Virðulegi forseti. Þá kem ég að efni tillögunnar eins og hún liggur fyrir núna. Breytingin sem orðið hefur á tillögu sérfræðinganna, sem var byggð á ítarlegum rannsóknum til margra ára, víðtæku samráði þeirra við leikmenn og lærða um allt land, er sú að sex virkjunarkostir hafa verið fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk þar sem nauðsynlegt var talið að kanna nánar einstaka áhrifaþætti þeirra. Um er að ræða Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun, allar í Þjórsá, Skrokkölduvirkjun, Hágönguvirkjun 1 og 2. Auðvitað eru menn alltaf að læra eitthvað nýtt, ekki síst í þeim fræðum sem þingsályktunartillagan lýtur að. Hins vegar eru virkjunarkostir í Þjórsá þeir kostir sem eru hvað mest rannsakaðir á landinu og ekkert í gögnum þessa máls bendir til annars. Þvert á móti virðist vera að telji menn eitthvað órannsakað á þeim slóðum þá sé það nokkuð sem illmögulegt sé að rannsaka yfir höfuð, a.m.k. svona fyrir fram. Það skýtur því skökku við að sjá þann rökstuðning að þeir kostir séu settir í biðflokk vegna þess að það vanti upplýsingar.

Þessir sex virkjunarkostir, þrír í neðri hluta Þjórsár og þrír á miðhálendinu, sem voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk voru virkjunarkostir sem höfðu raðast mjög ofarlega í nýtingarátt í vinnu faghópa og verkefnisstjórnar. Sú breyting sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar stóðu að hefur verið gagnrýnd mjög harðlega innan þings og utan, eins og komið hefur fram í umsögnum sem borist hafa um þessa þingsályktunartillögu bæði á vorþingi og nú í haust. Niðurstaða ráðherranna hefur verið gagnrýnd út frá þeirri forsendu að hún víki frá faglegri niðurstöðu án fullnægjandi raka og hún byggist umfram allt annað á einhvers konar pólitískri málamiðlun innan ríkisstjórnarflokkanna og á milli þeirra.

Virðulegi forseti. Það er líka athyglisvert sem fram kemur í áliti frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar og varðar áhættu og áleitnar spurningar um nýtingu háhitasvæða og óleyst vandamál á öllum stigum, eins og það er orðað í nefndarálitinu. Meiri hluti nefndarinnar virðist hafa efasemdir og áleitnar spurningar um sjálfbærni orkuvinnslunnar, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva og affallsvatns og annars konar mengunar, um mengun lofts af völdum brennisteinsvetna og jarðskjálftavirkni vegna niðurdælingar á þessum svæðum. Nefndin gerir hins vegar ráð fyrir að þau svæði séu öll í orkunýtingarflokki. Það virðist þó blasa við hér að þessar spurningar séu vegna ónógra rannsókna á þeim svæðum og verður ekki litið öðruvísi á afstöðu nefndarinnar en sem hér gæti verulegs ósamræmis í afstöðu þingmanna til annars vegar þessara sex virkjunarkosta, sem ég hef nefnt hér áður og voru færðir úr nýtingarflokki í biðflokk, og hins vegar háhitasvæðanna sem nefndin virðist hafa töluverðar áhyggjur af en telur allt að einu að eigi að vera í nýtingarflokki.

Virðulegi forseti. Er ekki dæmigert að menn hafi náð að koma þessu máli í algjöran hnút með hefðbundnum vinnubrögðum sínum? Jafnvel í þessu mikilvæga máli sem hefur verið unnið að árum saman, áratugum? Það var fyrir aldamót sem lagt var upp með óskaplega faglega vinnu til að skapa víðtæka sátt sem gæti staðið af sér pólitíska vinda og dægursveiflur en jafnvel þar hefur ráðamönnum nú tekist að koma málum þannig að lítil sem engin von virðist vera til að ná hinu upphaflega markmiði. Stjórnarherrarnir telja að í þinginu séu tveir hlutar. Annars vegar stjórnarmeirihlutinn og þeir sem óttast svo mjög um þingsæti sitt að þeir munu verja ríkisstjórnina falli. Svo er hinn hluti þingsins sem er stjórnarandstaðan eða að minnsta kosti sá hluti hennar sem ekki er hægt að stjórna. Ráðherrarnir hugsa eingöngu um fyrri hlutann, atkvæðin sem þeir reiða sig á til að forðast kjósendur og stjórnarskipti. Hinn hlutinn, stjórnarandstaðan, skiptir engu. Þess vegna reynir ríkisstjórnin aldrei að ná neinni sátt við stjórnarandstöðuna um nokkurn hlut. Þetta er það sem hefur verið uppi á teningnum í þessu máli um rammaáætlunina sem þó átti að vera sátt ólíkra sjónarmiða og endast óháð kjörtímabilum og stundarágreiningi. Jafnvel þarna hafa stjórnarherrarnir verið trúir þeirri vinnureglu sinni að eina sáttin sem þeir þurfi sé sáttin við eigin atkvæði í þinginu.

Stjórnarandstaðan, kjörin af tæplega helmingi kjósenda í landinu, þarf ekki að koma að neinni sátt. Það er meira að segja amast við því að stjórnarandstaðan tali um málið, hvað þá að menn hafi áhuga á að hlusta eins og sést hér í þessum sal. En við hverju er að búast af mönnum sem í hreinskilni sjá ekkert að því að þjösna í gegn grundvallarbreytingum á til dæmis stjórnskipun ríkisins í gríðarlegum ágreiningi og eftir að hafa í tveimur opinberum atkvæðagreiðslum aldrei fengið meira en þriðjung kjósenda til að lýsa áhuga á framtakinu eða stuðningi við það?

Auðvitað er ekki við góðu að búast af slíkum stjórnarherrum. Menn sem ganga þannig fram gagnvart stjórnarskrá ríkisins, hver býst svo sem við því að þeir séu sæmilegri þegar kemur að öðrum málum? Stjórnarflokkarnir virðast halda að við valdatöku þeirra fyrir tæpum fjórum árum hafi grunnreglur lýðræðis og stjórnskipunar í reynd verið afnumdar og nú megi þeir hegða sér eins og þeim sýnist en með slíkum vinnubrögðum eyðileggja þeir auðvitað það sem stefnt var að með rammaáætluninni. Hvers vegna ættu aðrir að reyna síðar að ná sátt við þá sem enga sátt vilja? Núverandi ríkisstjórn vill engar sættir og hefur aldrei viljað þær. Hún hefur aldrei nokkurn tímann slegið af í neinu máli nema þegar hennar eigin liðsmönnum hefur verið nóg boðið. Það hefur verið sjaldan og raunar varla nema í upphaflega Icesave-málinu þegar hæstv. forsætisráðherra ætlaði að þröngva Icesave-samningnum í gegnum þingið án þess að hafa lesið hann sjálf og hinir rannsóknaóðu þingmenn Samfylkingarinnar hafa nú ekki enn þá hvatt til þess að það mál allt verði rannsakað.

Núverandi stjórn vill engar sættir um neitt. Hún hefur á fjórum árum aldrei boðið neitt sem máli skiptir fram til sátta. Hún krefst þess einfaldlega að stjórnarandstaðan haldi sér saman og fari heim. Fyrir stjórnarherrunum, að ógleymdum undarlegustu fylgihnöttum þeirra, hefur hin raunverulega stjórnarandstaða í landinu ekkert lýðræðislegt hlutverk. Hún á bara að þegja. Við hana þarf enginn að tala og tali hún sjálf ætla stjórnarherrarnir ekki að hlusta. Þess vegna er rammaáætlunin orðin eins og hún er og þess vegna er stjórnarskrá lýðveldisins í lífshættu en ofstækismenn iða nú í skinninu að fá að leggja hana í rúst án þess að hún hafi nokkuð til sakar unnið.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef nefnt þá hef ég samúð með raunverulegri sannfæringu þingmanna í þessu máli. Ef það er sannfæring þeirra að svör vísustu manna á þessu sviði séu ekki grundvöllur að sátt í málinu þá hljóta þingmenn að standa við hana. Gott og vel. Hljóta þá ekki fleiri virkjunarkostir að taka aðra stöðu í flokkun þingsályktunartillögunnar en þeir sex sem nefndir hafa verið? Um leið er hins vegar fallið frá markmiðinu um sátt sem rammaáætlunin stefndi að. Það er svo sem allt í lagi í sjálfu sér en menn verða þá að viðurkenna það og að sjónarmið þingmanna eru mismunandi í þeim efnum. Ég tel reyndar að það væri undarlegt ef svo væri ekki.

Um leið og menn viðurkenna að hér er ekki um sáttaskjal að ræða og að tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða er pólitísk yfirlýsing stjórnarflokkanna sem tekur tillit til ólíkra sjónarmiða þingmanna þessara tveggja flokka, er hægt að taka afstöðu til málsins og hugsanlega samþykkja það í heild eða að hluta.