141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér vernd og orkunýtingu landsvæða, svokallaða rammaáætlun, og sú umræða hefur tekið nokkuð langan tíma og samt er hún enn eingöngu miðuð við Ísland. Ég komst í dag í gögn frá þýska viðskipta- og tækniráðuneytinu um upplýsingar um stöðu mála í Þýskalandi og á alheimsvísu. En fyrst vil ég geta þess …

Herra forseti. Hv. þm. Mörður Árnason hvarf úr salnum einmitt þegar ég hóf mál mitt. Ég vildi gjarnan að hann hlustaði á mál mitt. Ég sé að hv. formaður umhverfisnefndar situr hér sem endranær og ber að þakka það, en hv. þm. Mörður Árnason er talsmaður málsins.

Ég ætlaði sem sagt að ræða hvernig þetta lítur út í heiminum. Nú hef ég það fyrir satt að íslenskir þingmenn hafa farið til útlanda. Þeir hafa meira að segja komið til Kína og Indlands og hafa séð þá gífurlegu mengun sem þar er vegna svakalega mikillar brennslu kola, olíu, gass og svo framvegis sem er staðreynd. Þar er verið að framleiða rafmagn og brenna heilu fjöllunum af kolum, olíu og gasi. Í Þýskalandi þar sem búið er að taka upp kolefnisskatt er 11% af allri orkuneyslu Þjóðverja endurnýjanleg orka — heil 11% — en allt hitt er brúnkol, steinkol, jarðgas, olía, jarðolía og kjarnorka. Af þessum 11% sem eru endurnýjanleg eru 6% vegna bíómassa, þ.e. þar sem ræktuð er repja og annað slíkt til að ná upp orku. Þetta er staðan í heiminum, herra forseti, og við erum hér að rífast um það hvort einhver laxaseiði séu í hættu í neðri hluta Þjórsár, laxaseiði sem eflaust eru til vegna þess að það er búið að jafna rennslið í Þjórsá. Þjórsá skolaði þeim örugglega reglulega í burt áður en virkjað var þó að ég þekki það ekki nákvæmlega, en það er staðreynd að margar jökulár sem hafa verið virkjaðar hafa endað sem góðar, lygnar og tærar laxveiðiár.

Núna er það notað sem rök fyrir því að ekki megi virkja að búið sé að virkja. Á sama tíma er heimurinn að drukkna í koldíoxíðmengun og verslun Evrópusambandsins með losun koldíoxíðs leiðir meira að segja til þess að stórfyrirtæki sem nota mikla orku flytja starfsemi sína frá Evrópusambandssvæðinu, loka álverum o.s.frv., segja upp fólki á Ítalíu og Spáni og annars staðar. Hvert skyldu þau fyrirtæki fara, herra forseti? Það er nefnilega ágætisspurning. Þau fara til Kína þar sem raforkan er framleidd með brennslu jarðefna og koldíoxíði. Á meðan rífumst við um rammaáætlun og einhver laxaseiði í neðri hluta Þjórsár. Það er eins og þetta sé ekki sami heimur, við séum bara á allt öðrum hnetti.

Mér er kunnugt um það að sumir þingmenn hafa farið til Beijing og séð mengunina. Menn geta ekki einu sinni horft götuna á enda fyrir mengun en hv. þingmenn sjá ekki neitt, þeir finna ekki einu sinni lyktina, þeir skynja ekki neitt, vita þetta ekki og eru að rífast um rammaáætlun og reyna að setja sem allra mest í vernd, toga skækla sína hingað og þangað.

Ég er nærri viss um að eftir svona þrjú, fjögur, kannski fimm ár mun umhverfisverndarsamtökum í Þýskalandi ofbjóða koldíoxíðlosun í heiminum og krefjast þess að Íslendingar virki. Það er rökrétt. Af hverju eiga Íslendingar að vernda sína hreinu orku þegar heimurinn er að kafna í koldíoxíðmengun? Hitnun jarðar er stórhættuleg, en það er eins og við horfum bara á naflann á okkur og segjum: Við þurfum að vernda neðri hluta Þjórsár út af laxaseiðum. Ég skora á hv. þingmenn að líta upp frá þessari naflaskoðun og fara að samþykkja rammaáætlun sem sátt er um. Þá getum við kannski staðið uppi í hárinu á umhverfisverndarsinnum í Þýskalandi þegar þeir krefjast þess að við virkjum meira.