141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Skoðanaskiptin hér og umræðan um varúðarsjónarmiðin er búin að vera áhugaverð. Einnig ummæli hæstv. umhverfisráðherra í fyrirspurnatíma í morgun um umsagnarferlið og að beðið hafi verið um umsagnir til þess að mark yrði tekið á þeim. Ég er ekki sammála öllu því sem fram kom áðan. Ég mundi gjarnan vilja fá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, þáverandi iðnaðarráðherra, sem lagði fram þingsályktunartillöguna til að útskýra fyrir mér sérstaklega — í beinu framhaldi af umræðunni um varúðarsjónarmiðin — af hverju umsagnarferlinu sem hæstv. umhverfisráðherra lagði svo mikla áherslu á hér í morgun var ekki fylgt þegar kemur að Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun neðri við Atley. Í umsagnarferlinu komu fram ábendingar nákvæmlega eins og breytingin á flokkun virkjana í neðri hluta Þjórsár er sögð byggja á, en ekki var tekið tillit til þeirra og ég hef ekki enn þá fengið svör við þessu.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði hér áðan að við ættum ekki að vera að kalla á ráðherra og spyrja þá vegna þess að þetta væri á forræði þingsins. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er einmitt það, þingmaður. Hún er þar að auki þingmaður Suðurkjördæmis, hún er verðandi oddviti Samfylkingarinnar í því kjördæmi og þar sem þetta snertir ekki bara rammaáætlunina heldur líka uppbyggingu og efnahagsástand í kjördæminu þá hefði ég gjarnan viljað heyra hennar sjónarmið og hvet hana til þess að taka þátt í þessari umræðu.

Ég vil ítreka það sérstaklega nú þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er í þingsal varðandi þá umræðu sem var hér áðan um jarðhitavirkjanirnar á Reykjanesi að ég vísaði, að hv. þingmanni fjarstöddum, í viðtal sem ég heyrði við hana í Ríkisútvarpinu. Ég er með útskrift af vefnum þar sem þingmaðurinn hefur áhyggjur af hugsanlegu stórslysi á Reykjanesskaganum, eins og yfirskrift fréttarinnar er. Ég vil ítreka að ég er því algjörlega ósammála vegna þess að mér finnst þessi umræða ómarkviss, við getum og við höfum rætt það margítrekað bæði hér í þingsal og utan hans hversu vænt okkur báðum þykir um þetta svæði.

Vegna þess að margt er eftir órannsakað í jarðvarmanum þá er það algjör lykilforsenda að mínu mati að þessari flokkun kostanna á Reykjanesi verði ekki breytt. Það er algjör lykilforsenda vegna þess að það er ekki hægt að rannsaka þessa kosti þannig að viðunandi niðurstöður fáist nema hægt sé að gera á þeim tilraunaboranir. Þess vegna vil ég koma hér enn og aftur og ítreka það því mér finnst þetta vera orðið í umræðunni eins og verið sé að opna fyrir málamiðlun sem ég vil alls ekki. Ég vil líka ítreka að það að virkjunarkostirnir á Reykjanesi séu í nýtingarflokki þýðir ekki að hafist verði handa og virkjað í einu vettvangi heldur er það fyrsta skrefið af sextán, átján skrefum sem taka þarf áður en framkvæmdir fara af stað. Aldrei slíku vant er ég sammála hv. þm. Merði Árnasyni sem sagði hér áðan að við verðum að treysta umhverfislögum og öllu því ferli sem farið verður í eftir þetta skref til þess að takmarka og rannsaka þessa kosti. (Forseti hringir.) Þannig getum við gert það sem við eigum að vera að gera, að lifa í þessu landi með því að nýta og (Forseti hringir.) njóta náttúrunnar.