141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:12]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég hef sagt áður að ég hafi hugsað mér að halda ræðu eða jafnvel ræður hér í lok umræðunnar og þá reyna að svara ýmsum spurningum sem upp hafa komið í stað þess að koma hér í andsvör og svara, í stað þess að spyrja spurninga eins og ég lít á að andsvörum sé yfirleitt ætlað. En fyrst að hv. þingmaður spyr aftur varðandi hvers vegna það sama hafi ekki verið gert við Hólmsárvirkjun við Atley og Hagavatn þá vil ég benda á að hæstv. umhverfisráðherra stóð hér upp í andsvörum einmitt um þetta atriði ef ég man rétt, eða kom að minnsta kosti inn á þetta, þar sem bent var á að það er allt annars konar aðgerð að færa virkjunarkosti úr biðflokki í nýtingu eða vernd heldur en að færa virkjunarhugmyndir í biðflokk. Þá er eingöngu verið að segja að það eigi að rannsaka þá betur. Það á að svara frekari spurningum sem upp hafa komið um kostina og að því loknu að taka vonandi upplýstari ákvörðun um í hvorum endanlegum flokkinum þeir eiga að vera. Það er heilmikill munur á því að setja til dæmis virkjun í Hólmsá við Atley í nýtingu, úr biðflokki, það er miklu endanlegra. Það er miklu róttækara skref en að setja kosti þar sem upp hafa komið alvarlegar spurningar í bið um tiltekinn tíma. Ég vildi koma inn á þetta og rétt varðandi Reykjanesskagann þar sem ég hef sérstaklega bent á Sveifluháls og Sandfell sunnan Keilis, það er Krýsuvíkursvæðið. Tilraunaboranir, hv. þingmaður, raska svæðinu (Forseti hringir.) gróflega eins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa meðal annars bent á og vilja þess vegna alls ekki að þetta fari í nýtingu heldur einmitt í vernd.