141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Mikilsverð breyting hófst á ferlinu á 9. áratugnum árið 2007 þegar ákveðið var að láta rammaáætlun fá lögformlegt gildi í fyrsta lagi og í öðru lagi að breyta tilgangi hennar og meginmarkmiði úr því að vera einhvers konar listi yfir æskilega virkjunarkosti yfir í það að vera mat á landsvæðum og verðmæti landsvæða, hver af þeim væru þannig að þau mætti taka frá til virkjunar og hver af þeim væru þannig að ráðlegra væri að nýta þau með vernd, að viðhafa verndarnýtingu en ekki orkunýtingu á þeim svæðum.

Eins og ég fagna ræðu þingmannsins þá sakna ég þess að hann skyldi ekki hafa verið við upphaf umræðunnar, ég veit að það voru fullkomlega löggiltar ástæður til þess. Þar einmitt tók ég fram, í upphafsræðu minni sem framsögumaður meirihlutaálitsins í þessu efni, að fyrst og fremst bæri okkur að fagna þeim miklu þáttaskilum sem þessi þingsályktunartillaga mundi skapa við að taka frá svæði, að helga svæði verndarnýtingu með ýmsum hætti. Ég taldi upp mjög mörg af þeim svæðum sem þangað færu og ég þakka faghópunum og verkefnisstjórninni og formannahópnum fyrir þær tillögur sem þar var komist að í þessa átt.

Ég held að við getum öll verið tiltölulega sátt með þetta þegar þessari retorík og dramatík sem hér hefur verið búin til lýkur. Það eina sem hefur gerst frá því að formannahópurinn skilaði af sér tillögum sínum var það að á tveimur svæðum voru þrír virkjunarkostir, fimm og hálfur samtals kannski, sem fóru ekki í endanlega ákvörðun heldur í biðflokk. Það á að rannsaka þessa kosti betur og niðurstaða úr þeim rannsóknum, að minnsta kosti fyrsta skýrslan, á að liggja fyrir 1. mars 2014, að ég held, þannig að það er ekki lengri tími þangað til. Mér finnst svolítið að við séum að deila, forseti, um keisarans skegg í þessu efni miðað við alla þá umræðulengd og allan þann hamagang sem hér hefur verið.