141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég veit að það er klisja sem menn hafa haft uppi í þessari umræðu að einhvers staðar hafi hið faglega ferli endað og, eins og hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir talaði um, hinar pólitísku krumlur ríkisstjórnarinnar komist að. Eins og rakið er í meirihlutaáliti okkar, sem ég veit að hv. þingmaður hefur lesið en á að vísu eftir sér til ánægju og yndisauka að hlusta á ræðu mína sem honum er velkomið að gera í þar til gerðum miðlum, er kafli sem mér finnst mikilvægur. Mig minnir að hann heiti Sex verkþættir og þar er rakið það ferli sem ég veit að hv. þingmaður tók þátt í og þekkir þess vegna. Þegar menn halda því fram að hið faglega ferli hafi einhvers staðar endað þegar hin pólitíska krumla tók við verða þeir að nefna nákvæmlega hvar í ferlinu það gerðist.

Hv. þingmaður var eini stjórnmálamaðurinn, atvinnustjórnmálamaðurinn eða að minnsta kosti þingmaðurinn, sem sat í verkefnisstjórninni. Hún veit að verkefnisstjórnin var ekki þannig samsett og ekki þannig hugsuð að hún ætti að skila þeim tillögum sem ráðherrarnir að lokum skiluðu. Það var ekki þannig. Besta dæmið um það er seta hv. þingmanns í verkefnisstjórninni því að það hefði verið fráleitt að ætla verkefnisstjórninni það með þingmann innan borðs, sem byrjaði í stjórninni og var síðan treyst til að halda áfram þegar hann fór síðan í stjórnarandstöðu, að fela slíkum þingmanni það ásamt öðrum fulltrúum ráðherra og fulltrúum ýmissa stofnana að setja fram lokatillögur um þetta og láta hana jafnvel ganga í gegnum þingið eins og menn hafa verið að ímynda sér að gæti gerst. Það gat auðvitað ekki orðið þannig. Þess vegna varð til þessi formannahópur sem skilaði drögum að þingsályktunartillögu.

Núna virðist loksins vera að skapast samstaða um það og ég fagna því, meira að segja hv. þm. Jón Gunnarsson er hættur að tala um Norðlingaölduveitu og er farinn að tala um að þessi drög hafi verið fín en pólitíska krumlan hafi komið á eftir. Það eru þessir sex kostir af tveimur landsvæðum sem á að skila niðurstöðu um 1. mars 2014. (Forseti hringir.) Er það svo? Er hv. þingmaður sammála því að hin pólitíska krumla hafi komið þarna inn eða er það annars staðar? (Forseti hringir.) Var það í verkefnisstjórninni þar sem hún sat? Hvar er það, forseti, sem hv. þingmaður telur að þetta hafi gerst?