141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:35]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kannski að æra óstöðugan að halda áfram að velta því fyrir sér hvenær hinni faglegu vinnu lauk og hvenær hin pólitísku afskipti, pólitíska krumlan, pólitísku fingraförin, hófust á þessu máli.

Eins og málin blasa við mér á málið sér gríðarlega langan aðdraganda og smám saman komu menn sér upp tilteknu verklagi. Verkefnisstjórnin setti sér ákveðin viðmið um það hvernig hún vildi nálgast viðfangsefni sitt. Sá rammi sem þar var skapaður utan um starfið má segja að hafi verið leiðarljós fyrir alla vinnuna sem fór fram í kjölfarið. Auðvitað er þetta að hluta til matskennt og við mælum þetta ekki eins og við séum að mæla í tilraunaglasi einhverjar efnajöfnur. Það er auðvitað ekki þannig. Að hluta til er þetta huglægt og við skulum viðurkenna það. En engu að síður hafa verið sett fram tiltekin viðmið sem menn geta stuðst við. Það eru til dæmis hlutir eins og hagkvæmni og ekki síst að reynt er að setja þetta á einhvers konar kvarða þar sem við reynum að mæla áhrifin á hið náttúrlega umhverfi. Við sjáum það í hinni ýktustu mynd að engum dytti í hug nú til dags t.d. að virkja Gullfoss eða Dettifoss eða virkja Geysi. Menn hafa sett tiltekin viðmið og þau virðast hafa verið býsna óumdeild.

Síðan skoða menn aðra þætti sem eru kannski mælanlegir. Það geta verið efnahagsleg áhrif, þau eru tiltölulega vel mælanleg. Menn vita til dæmis hver hin efnahagslegu áhrif yrðu ef virkjunarframkvæmdir hæfust í neðri hluta Þjórsár í tveimur eða þremur áföngum, eftir því hvort um væri að ræða allar þrjár virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár eða tvær. Við vitum nokkurn veginn hver kostnaðurinn yrði, hver mannaflsþörfin yrði, við vitum nokkurn veginn hvernig það mundi síðan hafa frekari áhrif út í samfélagið á framboð, á neyslu, á fjárfestingar o.s.frv. Síðan mundum við geta áfram reiknað þegar við skoðum ætlun okkar um að selja þessa orku að sjálfsögðu til arðvænlegra iðnaðarkosta. Þá getum við skoðað þær framtíðartekjur sem þetta skapar fyrir Landsvirkjun sem er í eigu ríkisins, hvaða möguleika ríkið eigi síðan í framhaldinu að fá arðgreiðslur af þessari miklu eign sinni, hvaða möguleika við sjáum fyrir okkur á atvinnulegri uppbyggingu, gjaldeyrisöflun o.s.frv. Sumir þessara þátta eru mjög vel mælanlegir.

Síðan eru aðrir þættir eins og til dæmis áhrif á aðrar atvinnugreinar. Tökum sem dæmi ferðaþjónustu — stundum er þessu stillt upp þannig að ferðaþjónusta og virkjunarframkvæmdir og iðnaðaruppbygging séu ósamrýmanlegir kostir. En er það þannig? Höfum við ekki séð á síðustu árum, eftir mestu orku- og iðnaðaruppbyggingu síðustu ára og áratuga sem nýlega er lokið, mikinn vöxt í ferðaþjónustunni á öllu landinu og meðal annars á þeim svæðum þar sem virkjað hefur verið?

Við sjáum af þessu að þrátt fyrir allt geta þessar atvinnugreinar mjög vel gengið saman í takt. Það er vel hægt að byggja upp þessa kosti saman en þá verðum við auðvitað að gæta að ákveðnum reglum, ákveðinni sambúð. Við ætlum ekki að virkja þannig að það eyðileggi náttúruperlur okkar sem eru sannarlega helsta aðdráttaraflið fyrir ferðamennina. Í því ljósi hljótum við að skoða þessi mál.

Síðan er hitt sem má ekki gleymast. Tökum dæmi af áhrifunum á byggðarlögin. Hér er stundum búið að nefna Hagavatnsvirkjun. Er hún ekki gott dæmi um mögulega góða sambúð ferðaþjónustunnar, orkunnar og iðnaðarins? Ferðaþjónustan hefur bent á að hún mundi ekki bara draga úr uppblæstri heldur hefði hún væntanlega í för með sér vegagerð, hóflega auðvitað, sem ekki spillti umhverfinu inn að Hagavatninu og opnaði nýjar leiðir fyrir ferðamenn á þessu svæði. Það eru einmitt ferðaþjónustuaðilarnir sem hafa bent á tækifærin sem í þessu felast. Þekkjum við ekki dæmi um að menn hafi nýtt sér þetta í tengslum við uppbyggingu á orkufyrirtækjum hvort sem það er í Þjórsá, austur á Kárahnjúkum eða hvar sem er? Við sjáum að ef menn gera þetta skynsamlega, reyna að meta þetta eins og fyrrum var gerð tilraun til með þessari þingsályktunartillögu er hægt að tryggja þessa góðu sambúð eins og alltaf var að stefnt.